Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lýsuhólslaug gengur í endurnýjun lífdaga

25.05.2019 - 21:44
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sögufrægasta sundlaugin á Snæfellsnesi gengur í endurnýjun lífdaga um mánaðamótin, þegar hún verður opnuð að nýju eftir miklar endurbætur. Laugin mun þó áfram halda sérstöðu sinni.

Lýsuhólslaug á sunnanverðu Snæfellsnesi var upphaflega byggð um 1950. Laugin nýtur töluverðrar sérstöðu, enda er hún fyllt með heitu ölkelduvatni sem kemur úr uppsprettu í nágrenninu. Laugin er full af grænþörungum og engum efnum, svo sem klór, er bætt í vatnið. 

Gamla laugin var komin vel til ára sinna og orðin nokkuð fúin. Síðasta haust var því tappinn tekinn úr henni í síðasta sinn. Fljótlega verður þó hægt að stinga sér til sunds á staðnum að nýju.

„Það er verið að byggja allt upp nýtt. Það var timburlaug hérna sem var orðin fúin og gömul og það er bara verið að gera allt klárt, nýtt og fínt,“ segir Sigrún Hafdís Guðmundsdóttir, forstöðumaður.

Allir að bíða

Mun laugin halda sérstöðu sinni?

„Já hún mun gera það. Hún breytist ekki neitt. Vatnið verður alltaf það sama. Þetta er ölkelduvatn beint úr jörðu sem gróður kemur í, er æðislegt, mjúkt og fínt. Fólk dýrkar þetta, kemur hingað aftur og aftur. Þetta er svona heilsulaug.“

Bæði Íslendingar og útlendingar?

„Já. Aðallega útlendingar á sumrin en Íslendingum er stöðugt að fjölga.“

Áætlaður kostnaður við verkið nemur 35 milljónum króna. Stefnt er að því að opna nýju laugina um næstu mánaðamót. 

Og menn hlakka mikið til?

„Það bíða allir.“

Og krakkarnir í skólanum hérna við hliðina, þeir vilja komast í sund?

„Alveg hreint. Þeir fylgjast með dag frá degi, hvernig gengur hjá þeim,“ segir Sigrún.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV