Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lýsa yfir neyðarstigi eftir fyrsta innanlandssmitið

06.03.2020 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neyðarstigi verður lýst yfir eftir að fyrsta innanlandssmit COVID-19 veirunnar var staðfest í dag. Sex ný tilfelli hafa verið greind í dag og er fjöldi smitaðra orðinn 43. Aðeins er tímaspursmál hvenær samkomubann verður sett á.

Þetta kom fram á blaðamannafundi þar sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landslæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra upplýstu um nýjustu vendingar í útbreiðslu COVID-19 veirunnar.

Búið er að taka um 400 sýni og greindust sex einstaklingar með veiruna í dag, til viðbótar við þá 37 sem sýktir voru fyrir. Alls er því fjöldi smitaðra orðinn 43.

Tveir þessara einstaklinga smituðust hér innanlands og er þetta í fyrsta skipti sem það gerist.

Einn einstaklingur sem greinst hefur með veiruna var lagður inn á sjúkrahús í gær. Það var gert af öryggisástæðum.

Voru í tengslum við smitaða að utan

Af því tilefni er fyrirhugað að uppfæra hættustig almannavarna upp í neyðarstig. Verður það gert formlega á næstu mínútum. Víðir sagði mikilvægt að undirstrika að neyðarstig muni ekki hafa mikil áhrif á almenning heldur beinist það fyrst og fremst að þeim stofnunum sem tilheyra viðbragðskerfinu.

Þau sem smituðust hér innanlands eru karl og kona á sextugs- og sjötugsaldri og búa þau á höfuðborgarsvæðinu. Þau eru, rétt eins og aðrir sem hafa smitast, ekki mikið veik. Þau höfðu bæði verið í tengslum við smitaða einstaklinga sem höfðu verið á skíðasvæðum. Verið er að rekja ferðir þeirra og er mögulegt að þau hafi mætt til vinnu.

Þurfa fleiri smit til að setja á samkomubann

Víðir sagði að ástandið væri ekki komið á það stig enn að lýsa yfir samkomubanni vegna faraldursins. Hins vegar sé óumflýjanlegt að á einhverjum tímapuntki verði að fara þá leið. Hins vegar eru viðkvæmir einstaklingar hvattir til að forðast mannamót.

Sagði Víðir að samkomubann sé eitt sterkasta verkfærið sem yfirvöld hafi í verkfærakistunni en nauðsynlegt sé að beita því á eins áhrifaríkan þátt og mögulegt er. Hann minnti á að samkomubann myndi hafa gríðarleg áhrif á samfélagið enda þýði það banna þyrfti samkomur þar sem 15 manns eða fleiri hittast.

Áður en til þess komi þurfi fleiri smit og staðfestingu á því að veiran berist víðar en það sem nú þegar er orðið.

Stjórnvöld skoða nú hvort ástæða sé til að uppfæra áhættusvæði til annarra svæða í Ölpunum en þeirra sem nú þegar falla undir áhættusvæði.

Íslensk Erfðagreining býður skimun

Alma Möller, landlæknir, segir ástandið á Ítalíu alvarlegt og undirstriki hversu þurfi að taka ógnina. Hún beindi til heilbrigðisstarfsmanna að vera vel undirbúnir til að meðhöndla veika á sjúkrahúsum, meðal annars að æfa sig að fara í og úr hlífðarbúningum.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur haft samband við stjórnvöld og boðist til að skima alla þá sem finna fyrir öndunareinkennum fyrir veirunni. Hafa heilbrigðisyfirvöld tekið vel í þær umleitanir og yrði það einstakt á heimsvísu. Enn á eftir að útfæra hvernig að því verður staðið.

Hver eru viðbúnaðarstig almannavarna?

Viðbúnaðarstig almannavarna hér á landi eru þrjú; óvissustig, hættustig og neyðarstig, sem er það efsta. Það hefur nú verið virkjað. Í tilfelli farsótta er það virkjað þegar heilbrigðisöryggi manna er ógnað og útbreiðsla smita er vaxandi og viðvarandi.

Gripið er til eftirfarandi ráðstafana, samkvæmt viðbragðsáætlun almannavarna, Heimsfaraldri, landsáætlun, frá 2020, þegar neyðarstig hefur verið virkjað:

  • Áhættumat í stöðugri endurskoðun.
  • Aukið samstarf/samráð við mikilvæg innlend samtök og stofnanir.
  • Aukið samráð/samstarf við mikilvæg erlend samtök og stofnanir; WHO, ECDC, EMA og eftir atvikum aðrar stofnanir.
  • Efld vöktun og farsóttargreining.
  • Dreifing fræðsluefnis til almennings og fagaðila. Markviss skráning fræðsluefnis á vef Embættis landlæknis.
  • Opinberum sóttvarnarráðstöfunum beitt, eins og takmörkunum á ferðafrelsi og samkomubanni, í samræmi við áhættumat.
  • Heimsóttkví getur verið beitt og til greina kemur að setja skip í sóttkví.
  • Full virkjun samhæfingar- og stjórnstöðvar.
  • Eftir atvikum full eða takmörkuð virkjun aðgerðastjórnstöðva í umdæmum.

Ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni og Embætti landlæknis lýsti yfir óvissustigi 27. janúar. Rúmum mánuði síðar, 28. febrúar, þegar fyrsta smitið var greint hér á landi var hættuástandi lýst yfir. Síðan hafa 43 smitast af veirunni og nú hefur neyðarástandi, hæsta stigi almannavarna, verið lýst yfir. 

Hér að neðan má sjá mynd sem almannavarnir hafa sent frá sér og sýnir mat þeirra hvaða áhrif aðgerðir almannavarna hafa á útbreiðslu veirunnar.

mat almannavarna á útbreiðslu covid-19 veirunnar með og án aðgerða