Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lyktin í Þorlákshöfn „ekki mönnum bjóðandi“

07.08.2019 - 08:30
Mynd: Rúv / Ruv
Þorlákshafnarbúar eru orðnir langþreyttir á ýldulykt sem liggur yfir bænum vegna hausaþurrkunar. Bæjarstjóri Ölfuss segir klárt að starfsemi með lyktarmengun eigi ekki heima í þéttbýli.  

Tvö hausaþurrkunarfyrirtæki hafa verið í Þorlákshöfn í rúm tíu ár, annað á vegum Lýsis hf. og hitt á vegum Fiskmarks. Íbúar hafi lengi kvartað yfir stækri ýldulykt af starfseminni.  Daði Þór Einarsson keypti ásamt konu sinni hús í Þorlákshöfn fyrir einu og hálfu ári síðan. 

„Við hefðum sennilega ekki gert það ef við hefðum vitað hver staðan var. Lyktin er ólýsanleg. Þetta er bara skítalykt. Við búum næst þessari starfsemi, það eru 300 metrar frá okkar húsi í beinni línu út í fiskverkunina eða hausaþurrkunina. Maður kemur heim á góðum degi og ætlar að henda sér í pottinn og hafa það huggulegt og lætur gera allt klárt og svo þegar maður ætlar út að þá er bara vindáttin búin að snúa sér og þetta er bara ekki mönnum bjóðandi. “

 

Daði Þór Einarsson, íbúi í Þorlákshöfn.
 Mynd: Fréttir
Daði Þór Einarsson, íbúi í Þorlákshöfn.

Bæjarstjórn Ölfuss hefur boðið fyrirtækjunum lóðir utan bæjarmarkanna. Lýsi opnaði nýja verksmiðju þar í apríl og hyggst hefja þurrkun í haust - sem leysir gömlu verksmiðjuna af. Fiskmark starfar enn í bænum en hefur verið gert að flytja.  

„Það sem sveitarfélagið gerði það var að skipuleggja nýtt svæði fyrir utan þéttbýlið og þangað stefnum við að því færa starfsemi sem stafar lykt frá, “ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. 

Elliði Vignisson Bæjarstjóri í Ölfusi
 Mynd: Fréttir
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.

Daði segir gríðarlegan baráttuanda hafa verið í íbúum Þorlákshafnar fyrir nokkrum árum síðan. 

„Fólk gerði allt til að fá þetta stöðvað en það var eins og að berjast við vindmyllu og við höfum farið með undirskriftarlisa á heilbrigðisstofnun Suðurlands sem að endaði með því að, þeir áttu sem sagt að stoppa þetta 31. júní, en fengu endurnýjun og okkur finnst það apparat frekar aumt. Þetta á ekki heima í bæjarfélagi, svona starfsemi.“

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur framlengt starfsleyfi Fiskmarks til áramóta. Bæjaryfirvöld binda vonir við að fyrirtækið flytji verksmiðju sína úr Þorlákshöfn að þeim tíma liðnum. 

Telur þú að starfsemi sem þessi sem skapar svona lykt eigi heima innan bæjarmarka?

„Nei, hvorki þarna né annars staðar. Við verðum að ganga lengra í því að skilja að atvinnustarfsemi sem hefur truflandi áhrif og íbúabyggð.“