Tvö hausaþurrkunarfyrirtæki hafa verið í Þorlákshöfn í rúm tíu ár, annað á vegum Lýsis hf. og hitt á vegum Fiskmarks. Íbúar hafi lengi kvartað yfir stækri ýldulykt af starfseminni. Daði Þór Einarsson keypti ásamt konu sinni hús í Þorlákshöfn fyrir einu og hálfu ári síðan.
„Við hefðum sennilega ekki gert það ef við hefðum vitað hver staðan var. Lyktin er ólýsanleg. Þetta er bara skítalykt. Við búum næst þessari starfsemi, það eru 300 metrar frá okkar húsi í beinni línu út í fiskverkunina eða hausaþurrkunina. Maður kemur heim á góðum degi og ætlar að henda sér í pottinn og hafa það huggulegt og lætur gera allt klárt og svo þegar maður ætlar út að þá er bara vindáttin búin að snúa sér og þetta er bara ekki mönnum bjóðandi. “