Lykt og reykur frá kísilverksmiðju PCC á Bakka

27.02.2019 - 19:00
Innlent · Bakki · Norðurland · Norðurþing · PCC
Mynd með færslu
 Mynd:
Neyðarskorsteinar á kísilverksmiðju PCC á Bakka á Húsavík opnuðust í dag svo töluverður reykur og lykt barst frá verksmiðjunni. Þetta er í annað sinn frá því á sunnudag sem þetta gerist. 

Að sögn forstjóra er ástæðan stíflun í rykhreinsibúnaði í ljósbogaofnum sem olli því að slökkva þurfti á báðum ofnum. Við það opnast fyrir neyðarskorsteina.

„Þetta er afleiðing af öðrum atburði frá því í síðustu viku þegar við fengum svo mikinn snjó og frost inn í ofnana okkar að við urðum að stoppa ofnana,“ segir Jökull Gunnarsson, forstjóri PCC á Bakka. „Þá kólnar allt niður og þá er hætta á að komi stíflur á eftir í rykhreinsivirkið,“ segir hann.

Spurður hvort þetta sé ekki eitthvað sem hægt hefði verið að sjá fyrir segir hann: „Við erum náttúrulega á Húsavík og það er búið að vera erfiður vetur, mikill snjór og mikill kuldi. Kvarsítið sem er aðalhráefnið inn í ofnana fraus saman í klumpa og varð að frostkögglum,“ segir hann. Hann segir að unnið sé að varanlegri lausn.

Talsverðir erfiðleikar hafa verið frá gangsetningu verksmiðjunnar í vor. Illa gekk að koma afli á annan ofn verksmiðjunnar og bilun varð í tölvubúnaði í sumar svo neyðarskorsteinar opnuðust. Eldur í verksmiðjunni í byrjun júlí svo framleiðsla stöðvaðist í um tvær vikur og vatnsleki varð úr vökakerfi annars ofnsins.

 Spurður hvort hann sé sáttur við þessa byrjun segir hann að þetta hefði mátt ganga betur.  „En það er þekkt í svona verksmiðju að það eru alltaf einhverjir barnasjúkdómar sem þarf að glíma við og ekki alltaf hægt að sjá allt fyrir,“ segir Jökull. 

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir ekki margar kvartanir berast vegna mengunar frá verksmiðjunni, jafnvel þegar neyðarskorsteinar hafi opnast. „Það er mjög misjafnt hvort fólk finni fyrir áhrifum af þessu hérna í bænum,“ segir hann. Auðvitað sé vont þegar opna þurfi fyrir neyðarskorsteina. „En það var viðbúið, það var búið að kynna að þetta þyrfti annað veifið að gerast en heilt yfir held ég að fólk hafi nú ekkert stórkostlega miklar áhyggjur af þessu,“ segir hann.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi