Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lykillinn að hleypa inn í stað þess að útiloka

Mynd: RÚV / RÚV

Lykillinn að hleypa inn í stað þess að útiloka

30.08.2019 - 16:50

Höfundar

Sextán listamenn frá Íslandi og Póllandi taka þátt í hátíðinni Ágústkvöld - Pod konice sierpnia, sem dreifir sér um alla Hamraborg.

Bækistöð hátíðarinnar er galleríið Midpunkt í Hamraborg en listrænir stjórnendur eru þær Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson og Wiola Ujazdowska. „Hugmyndin kemur frá Wiolu,“ segir Ragnheiður. „Hún vildi gera pólska listamenn sem búa hér sýnilegri.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson.

Í vikunni var sagt frá því að Pólverjar á Íslandi eru orðnir rúmlega 20 þúsund talsins. „En þeir eru ekki jafn sýnilegir í listaheiminum eða í samfélaginu eins og þeir ættu að vera,“ bætir hún við. „Íslendingar geta verið lokaðir. Við þurfum að vera með opinn arm og vera duglegri að hleypa fólki að okkur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Wiola Ujazdowska.

Viðfangsefni listamannanna á hátíðinni eru mörg og formin ólík en á dagskrá eru tónleikar, innsetningar og fleira. „Mér finnst spennandi og mikilvægt að efna tilviðburðar þar sem meirihlutahópur mætir minnihlutahópi og að það fari fram samræða milli þessara tveggja hópa,“ segir Wiola.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Drengurinn fengurinn var hluti af sýningunni.

„Flestir eru undir þrítugu, sum hafa búið hér í fimm ár, önnur skemur og sýna verk sem eru unnin hér. Það er mjög gott að geta rætt aðstæður okkar hér sem ungir aðfluttir listamenn. Við þurfum að huga að því að innflytjendur hafa breytt þessu samfélagi mikið, um það bil 15 prósent íbúa á Íslandi eru af erlendum uppruna, Svo það er gaman að hafa þetta stefnumót, þar sem bæði Íslendingar og útlendingar koma saman. Það held ég að sé lykillinn að því að láta hlutina ganga upp, að hleypa inn í stað þess að útiloka.“

Listahátíðin Ágústkvöld - Pod konice sierpnia stendur til 1. september. Fjallað var um hátíðina í Menningunni.