Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Lykilatriði að við hröðum okkar vinnu“

28.07.2019 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Vonast er til að veitingastaður og gistihús verði opnað á Bakkafirði eftir um það bil tvær vikur. Nýr verkefnisstjóri Byggðastofnunar á staðnum segir að mörg verkefni séu í pípunum en nauðsynlegt sé að hraða vinnunni.

Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi sveitarstjóri, var nýlega ráðinn verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar, sem er hluti af brothættum byggðum.

Endurbæta og breyta verslunarhúsinu

Hann segir að þessa dagana beri hæst endurbætur á húsnæði gömlu verslunarinnar, en þar á að opna veitingastað og pöntunarþjónustu, enda engin verslun á staðnum. „Og síðan er í kringum það gistiaðstaða þannig að það er verið að snúast hér að ferðamennskunni. Framkvæmdir ganga ágætlega og ég ímynda mér að það séu rúmar tvær vikur í að það verkefni klárist og geti opnað,“ segir Ólafur. 

Vegaframkvæmdir loks að hefjast

Af öðrum stórum og jákvæðum verkefnum á vegum ríkis og sveitarfélaga megi nefna að lagning ljósleiðara hefjist á næstu vikum. Þá sé búið að bjóða út og fá verktaka í fyrsta áfanga við að leggja slitlag á veginn milli Þórshafnar og Bakkafjarðar. Stjórnvöld samþykktu í fyrra að flýta vegaframkvæmdum, sem var ein af nokkrum aðgerðum til þess að styðja við byggðina.

Önnur aðgerð var að koma Bakkafirði inn í verkefnið Brothættar byggðir og það er nú komið af stað. 

Tímasettar aðgerðir brátt kynntar

Ólafur segist nú vera að ljúka verkefnaáætlun fyrir svæðið sem verði kynnt fljótlega. Þar verði að finna tímasettar aðgerðar og ýmsar hugmyndir. 

Eins og kunnugt er fór fiskvinnslufyrirtækið Toppfiskur á hausinn fyrr á árinu og hefur Íslandsbanki yfirtekið hús þess. Ólafur segir að þeim þurfi að finna hlutverk, ýmist undir fiskvinnslu eða annars konar starfsemi. 

Þungt hljóð í mörgum

Þá þurfi einnig að koma skólamálunum í horf, en ekkert skólahald hefur verið á Bakkafirði undanfarin misseri. Og tíminn er naumur, enda þungt hljóð í mörgum íbúum. „Þeir sem ég hef hitt eru svo sem ekkert endilega bjartsýnir því þetta eru erfiðleikar þegar svona skellur yfir, svona miklar hamfarir eins og við segjum. Það er bara lykilatriði að við hröðum okkar vinnu og reynum að sannfæra fólk um að það sé hægt að breyta þessu,“ segir Ólafur.