Tónlistin við Joker hefur vakið mikla athygli. Todd Phillips, leikstjóri myndarinnar, fór nokkuð óhefðbundna leið því hann sendi Hildi einfaldlega handrit myndarinnar og bað hana um að semja tónlistina út frá því. Joaquin Phoenix, sem hlaut Golden Globe fyrir leik sinn í myndinni, hefur sagt í viðtölum að tónlistin hafi átt stóran þátt í því hvernig hann túlkaði Jókerinn í myndinni.
Þótt Golden Globe-hátíðin sé einn af hápunktunum í Hollywood er verðlaunatímabilið rétt að hefjast. Tilkynnt verður á morgun hverjir verða tilnefndir til hinna bresku Bafta-verðlauna og strax í næstu viku kemur í ljós hverjir fá tilnefningu til Óskarsverðlauna. Golden Globe þykja oft gefa góða vísbendingu um hverjir hljóta tilnefningu til þessara verðlauna og það kæmi á óvart ef Hildur yrði ekki meðal þeirra.
Sigurganga Hildar að undanförnu hefur verið lyginni líkust. Henni gefst ekki mikill tími til að njóta sigursins á Golden Globe því í lok þessa mánaðar kemur í ljós hvort tónlist hennar við sjónvarpsþættina Chernobyl fái hin eftirsóttu Grammy-verðlaun. Chernobyl-þættirnir hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda og þar leikur tónlist Hildar stórt hlutverk en hún tók upp hljóð í kjarnorkuveri í Litháen til að nota í hljóðrásina.
Standi Hildur uppi sem sigurvegari á Grammy hefur henni tekist að vinna nokkuð sjaldgæfa þrennu því hún vann til Emmy-verðlauna í september fyrir Chernobyl, Og þá er þetta ekki upptalið. Hildur var verðlaunuð fyrir tónlistina í Joker á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og var valin sjónvarpstónskáld ársins á World Soundtrack Awards.