Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lyfjanotkun barna tengist álaginu

16.10.2017 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Sigurður Sigurjónsson, starfandi formaður Félags stjórnenda leikskóla, telur að lyfjanotkun barna í leikskólum tengist að einhverju leyti slæmum aðstæðum barnanna í skólanum. Það sé mikið álag að vera 8-9 klukkutíma á dag í allt of litlu rými eins og tíðkast hér á landi. Hann segir að lyfjanotkun barna sé mikið áhyggjuefni.

Hér á landi er næstum því þrefalt algengara að börn á leikskólaaldri fái tauga- og geðlyf en í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Þetta kom fram í tilkynningu frá Landlæknisembættinu fyrir helgi. Í þennan flokk falla til dæmis lyf sem gefin eru við ADHD og kvíða, verkjalyf, þunglyndislyf og geðrofslyf.

Sigurður Sigurjónsson, starfandi formaður Félags stjórnenda leikskóla, segir að stjórnendur leikskóla hafi miklar áhyggjur af þessu, „og höfum komið á framfæri áhyggjum okkar af stöðu barna í leikskólum landsins. Skýrsla OECD frá því núna í júní 2017, sem heitir Starting Strong, sýnir að börn á Íslandi hafa lengsta viðveru á hverjum degi og flesta leikskóladaga á ári.  
Teljið þið að þessi lyfjanotkun leikskólabarna tengist þessu?  Já því að við getum alveg tengt það við þá umræðu að rými fyrir hvert barn í leikskólum á Íslandi teljum við vera of lítið með tilliti til fjölda barna og dvalartíma þeirra. Það er bara mikið álag fyrir ungt barn að vera í svona stórum hópi í svona litlu rými í svona langan dag.“

Sigurður segir að leikskólakennarar finni fyrir mjög auknu álagi vegna þess hve dvalartími barna á leikskólum hefur aukist mikið. „Það er stöðugt álag allan daginn, það er enginn að fara heim um miðjan dag þannig að þetta er stöðugt álag sem hefur áhrif á alla.“
 
Viðvera barna í leikskólum hafi aukist ár frá ári undanfarin 6-7 ár. „Ég tel að við gætum komið í veg fyrir einhverja lyfjanotkun með því að bæta aðstæður barna og fækka börnum á deild.“