Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lyf og heilsa til sonar Karls Wernerssonar

02.05.2017 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Karl Wernersson fjárfestir á ekki lengur lyfjaverslunarkeðjuna Lyf og heilsu. Rúmlega tvítugur sonur hans hefur eignast viðskiptaveldi föður síns. Leiðréttum ársreikningi með breyttu eignarhaldi var skilað daginn eftir að Karl var dæmdur í fangelsi í Hæstarétti.

Lyf og heilsa seld frá Milestone fyrir hrun

Karl Wernersson var einn umsvifamesti fjárfestir landsins fyrir hrun, í gegnum eignarhaldsfélagið Milestone, sem var í eigu Karls og tveggja systkina hans, Steingríms og Ingunnar. Þau eru börn Werners Rasmussonar apótekara. Milestone, sem var stórveldi á íslenskan mælikvarða, átti um tíma stóran hlut í Sjóvá og Glitni, en varð gjaldþrota haustið 2009. Milestone átti líka lyfjaverslunarkeðjuna Lyf og heilsu.

Nokkrum mánuðum fyrir hrun voru Lyf og heilsa seld út úr Milestone-samsteypunni. Í dómsmáli sem reis af þessu, og enn er óútkljáð, fullyrti lögmaður Milestone að ekki væri annað að sjá en tilgangurinn með sölunni hefði verið að koma Lyfjum og heilsu undan gjaldþroti Milestone.

Dæmdur til að greiða milljarða

Karl varð framkvæmdastjóri og eini eigandi Lyfja og heilsu, sem velti rúmlega sex milljörðum króna árið 2015 og rekur í dag á þriðja tug apóteka um allt land undir merkjum Lyfja og heilsu, Apótekarans og Gamla apóteksins.

En í fyrra varð Karl að hætta sem framkvæmdastjóri, eftir að Hæstiréttur dæmdi hann í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir efnahagsbrot. Nú í mars var hann, ásamt tveimur öðrum stjórnendum Milestone, dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða þrotabúi Milestone rúmlega fimm milljarða króna í skaðabætur. Með vöxtum mun það vera í kringum tíu milljarðar. Frestur til að áfrýja þeim dómi til Hæstaréttar er ekki liðinn.

Sonurinn eigandi í gegnum röð félaga

Samkvæmt nýjustu ársreikningum er Lyf og heilsa ekki lengur í eigu Karls. Félagið er nú í 99,6% eigu félagsins Faxar ehf. sem er í eigu annars félags, sem nefnist Faxi ehf. Faxi er að fullu í eigu þriðja félagsins, Toska ehf., sem er í eigu sonar Karls, Jóns Hilmars, sem er þar með eigandi Lyfja og heilsu. Jón er fæddur árið 1995, og verður því 22 ára á þessu ári.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þórisson - RÚV

Ársreikningur leiðréttur daginn eftir dóm

Þegar fréttastofa fjallaði um eignarhald Lyfja og heilsu fyrir rúmu ári var stuðst við upplýsingar úr nýjustu ársreikningum sem þá voru tiltækir, sem voru fyrir árið 2014. Þar kom fram að Karl Wernersson hefði verið endanlegur eigandi í árslok 2014.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þórisson - RÚV

Við vinnslu þessarar fréttar kom hins vegar í ljós að ársreikningurinn fyrir 2014 var leiðréttur eftir að honum var skilað til ársreikningaskrár ríkisskattstjóra, og skilað inn aftur.

Upprunalega útgáfan barst ársreikningaskrá 10. nóvember 2015. Þar var Karl Wernersson sagður hafa verið 100% hluthafi í félaginu Toska í árslok 2014, og þar með endanlegur eigandi Lyfja og heilsu.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þórisson - RÚV

Rúmum fimm mánuðum síðar, 28. apríl 2016, var Karl dæmdur í fangelsi í Hæstarétti, auk þess sem tveir dómar féllu sama dag í einkamálum gegn Karli. Daginn eftir, 29. apríl, var ársreikningurinn felldur úr gildi hjá ársreikningaskrá, að beiðni endurskoðanda félagsins, og nýr reikningur sendur inn. Í honum stendur að Jón Hilmar hafi verið orðinn 100% hluthafi í árslok 2014.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þórisson - RÚV

Samkvæmt upplýsingum frá ársreikningaskrá var ástæða þess að nýjum ársreikningi var skilað sögð vera villa í þeim fyrri, en ekki hafa fengist frekari skýringar á þessu.

Íbúðir, einbýlishús og bílar 

En Lyf og heilsa er ekki eina eignin sem nú er í eigu sonarins, því félagið Faxar á líka yfir 30 fasteignir: skrifstofuhúsnæði, jarðir, verslunarhúsnæði og íbúðir. Þar á meðal er heimili Karls sjálfs, rúmlega 400 fermetra einbýlishús á Arnarnesi í Garðabæ, sem Karl seldi Föxum, og þar með óbeint syni sínum, árið 2016. Þar fyrir utan eiga Faxar Bentley-bifreið og nýlegan Volvo-jeppa. Í eignasafninu er líka meðal annars 75% hlutur í félagi sem rekur Hljóðfærahúsið í Reykjavík og Tónabúðina á Akureyri.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þórisson - RÚV

Jón Hilmar Karlsson settist í stjórn Lyfja og heilsu nú í desember. Faxar, móðurfélag Lyfja og heilsu, átti rúmlega 1,3 milljarða króna í eigið fé í árslok 2015, samkvæmt nýjasta ársreikningi, en raunverulegt verðmæti fyrirtækjasamsteypunnar í heild liggur ekki fyrir.

Engin svör fengust hjá Karli og Jóni Hilmari

Það skal ítrekað að upplýsingarnar sem þessi frétt byggir á eru úr ársreikningum sem eru tiltækir hjá ársreikningaskrá og öðrum opinberum gögnum. Ársreikningur fyrir árið 2016 liggur ekki fyrir, og því ekki hægt að fullyrða hvort staðan sé óbreytt frá árslokum 2015.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að afla upplýsinga um núverandi stöðu og önnur atriði sem er ósvarað, hafa engar haldbærar upplýsingar fengist frá Karli, syni hans eða lögmanni síðan vinnsla þessarar fréttar hófst.

Ýmsu ósvarað um eigendaskiptin

Fréttastofa hefur frá því í síðustu viku ítrekað reynt að leita viðbragða og svara frá Karli og Jóni Hilmari. Jón Hilmar kvaðst ekkert hafa um málið að segja þegar náðist í hann í síma, og kvaddi og sleit símtalinu áður en náðist að bera undir hann öll þau atriði sem er óvarað. Þegar náðist í Karl í síma í síðustu viku bað hann um að hringt yrði seinna, en svaraði í framhaldinu hvorki símtölum né sms-skilaboðum.

Í gær voru sendar ítarlegar spurningar á Karl, Jón Hilmar og Ólaf Eiríksson, lögmann Karls, þar sem meðal annars var spurt hvers vegna eignarhaldið færðist yfir á Jón Hilmar, hvenær nákvæmlega það gerðist og hversu mikið hefði verið greitt fyrir hlutina, hvort breytingar hefðu orðið á eignarhaldinu eftir árslok 2015, og hvers vegna ársreikningi fyrir árið 2014 hefði verið skilað inn aftur með upplýsingum um leiðrétt eignarhald.