Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lúsaeitur: „Eðlilegur þáttur í laxabúskap“

23.05.2017 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það eru fimm til sex lýs á hvern lax í eldisstöð Arnarlax í Hringsdal í Arnarfirði. Lúsunum verður fargað með lyfjum og verður það í fyrsta sinn frá því á níunda áratugnum sem lyf eru gefin við laxalús hér. Matvælastofnun segir lyfin hafa hverfandi áhrif á umhverfið. Arnarlax hyggst ekki breyta upplýsingum á heimasíðu sinni um að fyritækið noti engin efni gegn laxalús. Forsvarsmaður fyrirtækisins segir smitið ekki vera áfall. Það sé eðlilegt að þurfa að fyrirbyggja lúsafaraldur með eitri.

 

Því hefur verið haldið fram að sjórinn hér við land sé of kaldur til þess að laxalús geti náð sér almennilega á strik. Í pistli sem fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun skrifaði fyrr í þessum mánuði segir: Sjúkdómastaða í fiskeldi á Íslandi er ein sú besta í heiminum, engin sýklalyf eru notuð í sjókvíaeldi hér. Þá er tíðræddur misskilningur um að í fiskeldi á Íslandi ríki lúsafár, sem villtum laxastofnum stafi hætta af. Það sé staðreynd að laxalús hafi aldrei valdið  vandræðum í íslensku sjókvíaeldi. 

 Matvælastofnun tilkynnti á föstudaginn í síðustu viku að hún hefið heimilað lyfjagjöf vegna laxalúsar á eldisstöð Arnarlax í Arnarfirði.  Lúsin sem nú á að eyða lifði af veturinn. Matvælastofnun bendir á að veturinn hafi verið óvenju hlýr, sjávarhiti í febrúar var 3,5 gráður að meðaltali en var 1,5 gráða í fyrra.

 

Arnarlax Laxeldi kvíar sjókvíar Vestfirðir Bíldudalur Arnarfjörður Fiskeldi Suðurfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is

Fiskurinn ekki sár

Eldisstöðin þar sem lúsin er samanstendur af sex eldiskvíum. Sigríður Gísladóttir, dýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að lúsin sé ekki farin að særa fiskinn. 

„Nei í rauninni grípum við inn í áður en það fer að gerast. Það er í raun ekki fyrr en við miklu fleiri lýs sem það fara að sjást sár og skaðar á fiskinum og þetta fer að hafa áhrif á lystina og svoleiðis." 

Segir Sigríður. 

Óvenjumikil lús síðasta sumar

Hún segir að það hafi verið óvenjumikið af lús síðastliðið sumar en verið ákveðið að bíða og sjá.

„Yfirleitt þá gerist það að fiskurinn aflúsast af náttúrulegum orsökum með köldum sjó en svo hefur hver gráða sem sjórinn er heitari en eðlilega jákvæð áhrif á lúsina og það gerist klárlega núna. Sú lús sem við erum að sjá á fiskinum lifði af veturinn, það var ekkert nýsmit á fiskinum." En það er fleira en hitastigið sem skiptir máli. Það er meira af laxi hér við land en áður og því ekki óeðlilegt að sögn Sigríðar að lúsin fylgi.

Kuldinn getur líka hjálpað lúsinni

Það kemur Guðna Guðbergssyni, fiskifræðingi á Hafró, ekki á óvart að lúsin láti á sér kræla hér. 

„Yfirleitt er það þannig. Skilyrðin geta verið mismunandi, bæði fyrir laxinn og lúsina en þetta er reynslan. Vandamálið getur verið misstórt en jafnan fylgir lúsin laxinum."

Hann segir að lúsina vaxa hægar í köldum sjó og fjölga sér hægar. Kuldinn geti þó líka hjálpað henni því í köldum sjó lifi lirfurnar lengur og geti dreift sér víðar.

Fangelsaðir fyrir að greina ekki frá lús

Lúsin getur gengið það nærri laxinum að hann drepst. Hún getur fjölgað sér hratt og dreift sér víða og af þeim ástæðum hafa Norðmenn hafa sett ströng viðmið um lúsafjölda í kvíum.  „Ef það verður mikil lús geta menn lent í því að missa tökin á henni," útskýrir Guðni. Lúsin getur þá fjölgað sér hratt og dreift sér um allt. Þá geti lúsin skaðað villtan lax. Þar sem eldiskvíar hafi verið nálægt ám með laxastofna hafi þeir minnkað, svo sem á Írlandi. Í Noregi má hlutfallið ekki fara yfir hálfa lús á hvern lax og eldisfyrirtækjunum ber skylda til að tilkynna um lúsasmit. Guðni segir dæmi um að menn sem bregðist upplýsingaskyldu sinni séu hnepptir í fangelsi. Hvert og eitt fyrirtæki ber mikla ábyrgð því einn slugsi getur eyðilagt fyrir öllum hinum. 

Ekki búið að gefa lyfin

Myndir af laxalús frá Noregi
 Mynd: NRK
Laxalús.

Það er ekki búið að gefa lyfin í Arnarfirði, þó Mast hafi gefið heimild fyrir lyfjagjöf. „Það er enn verið að undirbúa meðhöndlunina. Lyfið sem verður notað heitir Alfamax og þetta er í raun svona sníkjudýralyf," segir Sigríður. Aðgerðirnar miða að því að fyrirbyggja að lúsasmitið magnist upp með hækkandi sumarhita og tryggja að seiði sem fara í kvíar nú í júní þurfi ekki að búa við aukna hættu á smiti. Þau fái að byrja með hreint borð. Í haust hyggist fyrirtækið beita öðrum aðferðum til að vinna á lúsinni. „Til dæmis eiga þeir von á stórri sendingu af hrognkelsum sem eiga að éta lús af fiski. Þetta var í raun álitin vera fyrirbyggjandi aðgerð."

Lyfjagjöf eykur hættu á ónæmi

En var það auðsótt fyrir fyritækið að fá leyfið. Sigríður segir að svo hafi alls ekki verið. Hún mat ástand fisksins, tilkynnti það til yfirdýralæknis og fisksjúkdómanefndar sem tóku ákvörðunina. Í Noregi er lúsin sums staðar orðin ónæm fyrir lyfjagjöf. Þar þarf því að beita öðrum leiðum, svo sem háþrýstiþvætti, lasergeislum eða lífrænum lausnum, svo sem hrognkelsum sem éta lýs. Guðni segir enga algilda lausn til, þessum lausnum fylgi ákveðin vandamál líka. Sigríður segir að lúsin hér sé staðbundin og ekki ónæm, hættan á að hún verði það aukist þó eftir því sem meira sé gefið af lyfjum. 

„En við teljum að eins og kerfið er núna sé nokkuð góð stjórn á þessu, þetta er ekki auðsótt mál."

Hún segir erfitt að setja lyfjanotkun hér við land einhver mörk. Til að byrja með sé nauðsynlegt að meta hvert tilfelli fyrir sig.  

Neikvæð áhrif á humar og rækju

Guðni segir sum sníklalyf geta haft áhrif á skelskipti skeldýra. 

„Það hefur haft áhrif til hækkaðrar dánartölu á humri til dæmis og við vitum að það eru aðrar tegundir hér í fjörðum hjá okkur eins og rækja. Menn hafa kannski ekki beinar rannsóknir á því hvaða áhrif þetta getur haft. Nú er þetta yfirleitt staðbundið og einhver þynningaráhrif líka. Það þyrfti þá að skoðast í hverju tilfelli fyrir sig, meta þá ávinninginn og áhættuna líka. Þetta þurfa menn að skoða vel." 

Sigríður fullyrðir að áhrif þess lyfs sem á að gefa í Arnarfirði verði lítil sem engin. „Í þessu magni eru þau hverfandi, lyfið dreifist hratt í sjó og brotnar niður. Það safnast ekkert upp af því og eftir einhverja hundrað daga er nánast ekkert eftir af þessu efni."

Engin ástæða til að breyta upplýsingum á heimasíðu

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - arnarlax

Á heimasíðu Arnarlax segir að fyrirtækið noti engin lyf eða kemísk efni gegn laxalús. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins , Kristian Matthiasson, segir enga þörf á því að endurskoða upplýsingarnar á heimasíðunni þar sem þetta sé skordýraeitur, ekki lyf. Hann segir að þetta sé ekki áfall fyrir fyrirtækið, laxinn hafi ekki veikst. Það sé einfaldlega verið að kæfa vandann í fæðingu. Hættan á lúsafaraldri sé alltaf til staðar í laxeldi og það sé vel skilgreint í skýrslu MAST að fyrirbyggjandi aðgerðir gegn lús séu eðlilegur þáttur í öllum laxabúskap. Hann segir aðgerðina hugsanlega hafa einhver áhrif á skelfisk í nokkurra metra radíus frá kvíunum. Þetta hafi aftur á móti engin áhrif á rækju þar sem hana sé ekki að finna í Hringsdal. 

Kostnaðarsöm barátta

Lúsabaráttu Norðmanna fylgir kostnaður. „Mér hefur skilist að það kosti um fimm norskar krónur per kíló að eiga við lúsina," segir Guðni.  

En geta lýsnar kippt stoðunum undan laxeldi við Ísland? 

„Nei, ég held við þyrftum nú að vera bæði blind og heyrnarlaus ef við ætluðum að láta það gerast. Við höfum náttúrulega reynslu Norðmanna og Færeyinga af lús og sjáum hvert þeir stefna núna. Það eru margar góðar lausnir í sjónmáli og ég sé ekki hvers vegna sú þróun ætti ekki að nýtast hér," segir Sigríður. 

Ekki nægar upplýsingar við umsagnaskrif

Vöktun á laxalús er í höndum fyrirtækjanna sjálfra en þau hafa ekki verið skyldug til að tilkynna Matvælastofnun formlega um magn þeirra. Sigríður segir Matvælastofnun þó hafa fengið þessar upplýsingar. Guðni segir að skortur á upplýsingum hamli stundum Hafrannsóknarstofnun. 

„Þegar menn hafa verið að sækja um leyfi hefur Skipulagsstofnun beðið okkur um umsagnir um það til að reyna að gera sér grein fyrir og meta möguleg umhverfisáhrif. VIð höfum verið að glíma við það að þetta er tiltölulega ný atvinnugrein og margt af því sem kannski á eftir að koma í ljós, við höfum ekki séð það. Okkur hefur stundum vantað betri forsendur til að meta umhverfisáhrifin. Lúsin er einn þáttur í því, áhrif á erfðamál er annað. Við hefðum kannski þurft að standa betur að eftirliti og upplýsingagjöf þannig að þetta lægi betur fyrir. Þegar hraðinn í leyfisumsóknum er mjög mikill liggur mönnum oft mikið á en við höfðum talið að það væri skynsamlegt að fara hægar þannig að það væru betri og frekari forsendur til þess að meta umhverfisáhrifin."

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV