Árið 2012 gaf Skeljungur út bækling með upplýsingum til almennings. Þar er farið yfir það hvernig skuli bregðast við bruna eða sprengingu í stöðinni í Örfirisey. Þar segir að við eldsvoða geti borist reykur og ertandi eiturgufur frá birgðastöðinni, hvatt er til þess að fólk fari inn í næstu byggingu, loki gluggum, slökkvi á loftræstingu, kveiki á Ríkisútvarpinu og bíði frekari fyrirmæla.
Í öryggisskýrslu Vinnueftirlitsins er að finna lýsingu á því versta sem gæti gerst í oliubirgðastöðinni. Að olíugeymir eða olíuflutningsbíll yfirfyllist, það verði sprenging og myndist eitrað bensíngufuský. Höggbylgjan frá sprengingunni gæti valdið verulegum skemmdum og slysum í nágrenninu. Líkur á þessu eru taldar mjög litlar, í fyrsta lagi vegna öryggisráðstafana, í öðru lagi vegna þess að það blæs yfirleitt í Örfirisey, og það minnkar líkurnar á að svona óhapp geti orðið. „Fólk man kannski eftir því að fyrir mörgum árum síðan fóru alltaf lúðrar í gang ákveðna daga í mánuði, tengdir almannavörnum. Við erum eini staðurinn með slíka lúðra, settum þá upp hér fyrir utan. Þeir gefa frá sér mjög sterk hljóðmerki, við getum ræst þá, slökkviliðið og þeir sem eru hér líka, þannig að það fer ekkert á milli mála ef eitthvað kemur hér fyrir. Við ræsum þá til að vekja fólk, hvort sem er að degi til eða nóttu, þannig að fólk hreinlega forði sér.“
0,00001 dauðsfall
Árið 2007 leiddi Jón Viðar hóp sem vann skýrslu um áhættu vegna birgðastöðvarinnar í Örfirisey, sérstaklega með tilliti til þess hvort framtíðar íbúðabyggð stæði hætta af henni. Danska ráðgjafarstofan COWI var fengin til að meta áhættu vegna stöðvarinnar. Í kringum stöðina voru skilgreind áhættusvæði, litakóðuð eftir því hversu miklar líkur töldust á því að manneskja á svæðinu léti lífið á árstímabili. Á rauðu og gulu svæðunum næst stöðinni var talin hætta á 0,00001 dauðsfalli á ári. Í öryggisskýrslu Vinnueftirlitsins um stöðina í Örfirisey frá árinu 2017 er þetta hlutfall sett í samhengi, ef áhætta vegna snjóflóða er talin þetta mikil eða meiri hér er gripið inn í. Danska stofan taldi ekki æskilegt að fólk byggi á áhættusvæðinu, eða í innan við um tvö til þrjú hundruð metra fjarlægð frá birgðastöðinni.
Jón Viðar segir hættuna á því að lenda í stóru óhappi í tengslum við svona starfsemi mismikla eftir því hvar fólk býr á höfuðborgarsvæðinu, en að það sé enginn alveg óhultur. Því þurfi viðbragðsaðilar alltaf að vera tilbúnir því að rýma öll svæði.
Flutningurinn áhættumeiri
Svo virðist sem rekstraraðilar og viðbragðsaðilar séu meðvitaðir um áhættuna sem fylgir stöðinni í Örfirisey. En það er ekki birgðahaldið sem er hættumest, Jón Viðar segir flutning á eldsneyti hættumeiri. Frá Örfirisey er eldsneyti oftast flutt um Mýrargötu og áfram um Sæbraut, stundum Hringbraut.
Aftur segir Jón rekstraraðila olíubirgðastöðvarinnar standa sig með prýði. Þá séu eldsneytisflutningabílarnir merktir með appelsínugulum plötum. Viðbragðsaðilar á vettvangi átti sig strax á því hvaða efni er á tönkunum og hvernig skuli bregðast við, komi eitthvað upp á.