Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lúðrar ræsa fólk ef hættuástand skapast í Örfirisey

Mynd: rúv / rúv
Hliðið opnast og olíuflutningabílarnir aka sneisafullir frá Olíubirgðastöðinni í Örfirisey á bensínstöðvar í borginni. Það er heiðskírt og hvíta tankana ber við himinn. Þessi stöð hefur verið þarna frá árinu 1950. Fæstir velta innvolsi tankanna fyrir sér dagsdaglega en eldurinn sem braust út inni á öryggissvæði stöðvarinnar í Örfirisey í nótt vekur spurningar. Óhappið er áminning um að mörg fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu geyma eða nota hættuleg efni; til dæmis bensín, klór, etanól eða ammóníak.

Alvarleg óhöpp geta ógnað öryggi almennings, leitt til stórbruna, sprenginga eða þess að mengunarský leggist yfir byggð.   

Ekki mikill eldur

Í nótt kviknaði í starfsmannaaðstöðu inni á öryggissvæði birgðastöðvarinnar. Um fimmtán metra frá starfsmannaðstöðunni er olíutankur. Var einhver hætta á því að það kviknaði í honum? „Í sjálfu sér ekki, það kviknaði í þessari starfsmannaaðstöðu sem er afskaplega lítið rými, vel hólfað frá. Í öllum húsum hér og byggingum er viðvörunarkerfi, það gaf okkur strax skilaboð og við fórum strax á staðinn. Eldurinn var mjög afmarkaður og lítill,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins. Það gekk greiðlega að slökkva en slökkviliðið var lengi á staðnum, vildi staðsetningarinnar vegna fullvissa sig um að það væri búið að slökkva í öllum glæðum. 

Búið að kaupa aukabirgðir af slökkvifroðu

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Það sem brann.

Olíudreifing á húsið sem eldurinn kom upp í. Olíudreifing er í eigu N1 og Olís, en fyrirtækið á helming tankanna í Örfirisey á móti Skeljungi. Fyrirtækin eru alla jafna í samkeppni en vinna saman að öryggismálum. Að reka olíubirgðastöð er áhættusöm starfsemi og Jón Viðar segir þess vegna gerðar strangar kröfur. Það vill enginn sjá olíutank í ljósum logum!

 Jón Viðar segir rekstraraðila hafa gert ráðstafanir til að lágmarka hættu á óhöppum. Þeir standi fyllilega undir kröfum. „Það eru þrær í kringum olíutankana til að hindra það að olía nái að leka út um allt. Það er slökkvibúnaður í tönkunum og í samvinnu við Olíudreifingu og fleiri aðila er búið að kaupa aukabirgðir af froðu.“ 

Það versta sem gæti gerst

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Tankarnir í Örfirisey.

Árið 2012 gaf Skeljungur út bækling með upplýsingum til almennings. Þar er farið yfir það hvernig skuli bregðast við bruna eða sprengingu í stöðinni í Örfirisey. Þar segir að við eldsvoða geti borist reykur og ertandi eiturgufur frá birgðastöðinni, hvatt er til þess að fólk fari inn í næstu byggingu, loki gluggum, slökkvi á loftræstingu, kveiki á Ríkisútvarpinu og bíði frekari fyrirmæla. 

Í öryggisskýrslu Vinnueftirlitsins er að finna lýsingu á því versta sem gæti gerst í oliubirgðastöðinni. Að olíugeymir eða olíuflutningsbíll yfirfyllist, það verði sprenging og myndist eitrað bensíngufuský. Höggbylgjan frá sprengingunni gæti valdið verulegum skemmdum og slysum í nágrenninu. Líkur á þessu eru taldar mjög litlar, í fyrsta lagi vegna öryggisráðstafana, í öðru lagi vegna þess að það blæs yfirleitt í Örfirisey, og það minnkar líkurnar á að svona óhapp geti orðið. „Fólk man kannski eftir því að fyrir mörgum árum síðan fóru alltaf lúðrar í gang ákveðna daga í mánuði, tengdir almannavörnum. Við erum eini staðurinn með slíka lúðra, settum þá upp hér fyrir utan. Þeir gefa frá sér mjög sterk hljóðmerki, við getum ræst þá, slökkviliðið og þeir sem eru hér líka, þannig að það fer ekkert á milli mála ef eitthvað kemur hér fyrir. Við ræsum þá til að vekja fólk, hvort sem er að degi til eða nóttu, þannig að fólk hreinlega forði sér.“ 

0,00001 dauðsfall

Árið 2007 leiddi Jón Viðar hóp sem vann skýrslu um áhættu vegna birgðastöðvarinnar í Örfirisey, sérstaklega með tilliti til þess hvort framtíðar íbúðabyggð stæði hætta af henni. Danska ráðgjafarstofan COWI var fengin til að meta áhættu vegna stöðvarinnar. Í kringum stöðina voru skilgreind áhættusvæði, litakóðuð eftir því hversu miklar líkur töldust á því að manneskja á svæðinu léti lífið á árstímabili. Á rauðu og gulu svæðunum næst stöðinni var talin hætta á 0,00001 dauðsfalli á ári. Í öryggisskýrslu Vinnueftirlitsins um stöðina í Örfirisey frá árinu 2017 er þetta hlutfall sett í samhengi, ef áhætta vegna snjóflóða er talin þetta mikil eða meiri hér er gripið inn í. Danska stofan taldi ekki æskilegt að fólk byggi á áhættusvæðinu, eða í innan við um tvö til þrjú hundruð metra fjarlægð frá birgðastöðinni.  

Jón Viðar segir hættuna á því að lenda í stóru óhappi í tengslum við svona starfsemi mismikla eftir því hvar fólk býr á höfuðborgarsvæðinu, en að það sé enginn alveg óhultur. Því þurfi viðbragðsaðilar alltaf að vera tilbúnir því að rýma öll svæði. 

Flutningurinn áhættumeiri

Svo virðist sem rekstraraðilar og viðbragðsaðilar séu meðvitaðir um áhættuna sem fylgir stöðinni í Örfirisey. En það er ekki birgðahaldið sem er hættumest, Jón Viðar segir flutning á eldsneyti hættumeiri. Frá Örfirisey er eldsneyti oftast flutt um Mýrargötu og áfram um Sæbraut, stundum Hringbraut. 

Aftur segir Jón rekstraraðila olíubirgðastöðvarinnar standa sig með prýði. Þá séu eldsneytisflutningabílarnir merktir með appelsínugulum plötum. Viðbragðsaðilar á vettvangi átti sig strax á því hvaða efni er á tönkunum og hvernig skuli bregðast við, komi eitthvað upp á.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Vel merktur olíuflutingabíll.

Vill betri yfirsýn yfir efnaflutninga

Það er ekki bara olía sem er flutt um götur borgarinnar. Í skýrslu sem Verkfræðistofan Efla vann fyrir Reykjavíkurborg árið 2013 kemur fram að það skorti upplýsingar um flutning annarra hættulegra efna um höfuðborgarsvæðið og að ekki séu til opinber viðmið um ásættanlega áhættu vegna hættulegra efna. Í skýrslunni er bent á að Lýsi hf, sem er með starfsemi skammt frá Olíubirgðastöðinni, flytji inn tugþúsundir lítra af brennanlegu etanóli á ári, þá sé flutt mikið magn klórs í tengslum við lager Olís í Örfirisey. 
Jón Viðar telur að yfirsýnin um hvað er flutt, hvenær og eftir hvaða leiðum mætti vera betri. „Við getum sagt að megnið, og eiginlega allt það sem flokkast sem hættuleg efni komi með skipum til landsins. Allar merkingar í skipum eru vandaðar, flokkun góð og vel að þessu staðið. Við höfum verið að reka okkur á það að eftir að efnin koma úr skipinu eru þau sett á sérstaka staði í vörugeymslum en svo þegar þetta er farið í dreifingu, um allt landið, þá erum við ekki eins örugg með okkur, hvar hlutirnir eru niðurkomnir. Það eru ákveðin fyrirmæli, vörubílstjórar sem flytja hættuleg efni þurfa að hafa sérstök réttindi, en þarna held ég að við megum gera töluvert betur og við erum búin að senda erindi til þar til bærra yfirvalda og óska eftir því að á þessu verði skerpt.“ 

Þeir sem geyma mikið af hættulegum efnum eiga lögum samkvæmt að tilkynna um það og Jón Viðar hvetur atvinnurekendur til þess að láta vita  af síkum birgðum. Hann telur almannaverndarnefnd þó hafa nokkuð góðar upplýsingar um hvar þessi efni er að finna. „Það er ákveðin starfsemi sem þarf á þessum efnum að halda og við vitum um hana.“

Ekki til betri staður samkvæmt matsskýrslu

Mynd með færslu
 Mynd: Álfheiður Magnúsdóttir - Flickr
Tankarnir í Örfirisey, fyrr í dag.

Í matsskýrslunni frá árinu 2007 var lagt mat á hvort æskilegt væri að færa olíubirgðastöðina í Örfirisey annað, til dæmis í Álfsnes eða Straumsvík. Alls voru átján staðir metnir. Niðurstaðan varð sú að best væri að hafa hana þar sem hún er. Jón Viðar segir að það  þurfi ekki að keyra olíuna um langan veg og stór skip geti siglt upp að hafnargarðinum og fyllt á, það þurfi ekki að keyra olíu í hafnir. „Það var í raun allt sem sagði að þetta væri besta staðsetningin en hvað yrði gert í dag út frá nútímakröfum veit maður ekki.“

Væri þá hugsað um starfsemina í kring, fyrirtæki, verslanir og þjónustu? 

„Algjörlega, svo kæmi inn önnur lausn. Víðast hvar erlendis er farið að hafa þessa tanka neðanjarðar. Það eykur öryggi, auðveldar slökkvistarf að vissu leyti og kemur kannski í veg fyrir að tankar verði fyrir hnjaski. Það er alltaf verið að vega og meta ýmsa hluti,“ segir Jón Viðar.