Howard Philips Lovecraft var fæddur í Providence í Rhode Island í Bandaríkjunum árið 1890. Hann lést aðeins 47 árum síðar, þá nánast óþekktur nema meðal fárra aðdáenda. Eftir því sem leið á öldina jukust vinsældir hans og sérstaklega eftir síðustu aldamót - og nú má greina áhrif hans víða í afþreyingarmenningunni.
Í sögum Lovecrafts sem flestar birtust fyrst í ódýrum furðusagnatímaritum eru ill öfl á sveimi, að minnsta kosti tveir kynstofnar ofurgeimvera sem sem hafa dvalist á jarðkúlunni frá því aður en mannkynið varð til. Þau hafa blandast mannkyninu og bíða nú færis að sína mátt sinn og megin - taka völdin með tilheyrandi mannfórnum og hryllingi.
Sagnaheimur Lovecrafts hefur stundum verið kenndur við kosmískan hrylling en þar er lögð áherslu á smæð, kraft- og skilningsleysi mannkynsins í óendanlega stórum og óreiðukenndum alheimi. Við erum bara ómerkilegt rykkorn miðað þá krafta sem raunverulega stýra veröldinni. Við erum ekki kóróna sköpunarverksins, við vitum ekkert, skiljum ekkert. Og sem betur fer.
„Ég held að mesta miskunn sem mannkyninu hafi verið sýnd er vangeta þess að setja alla vitneskju sína í samhengi. Við erum stödd á friðsælli eyju þekkingarleysis, í miðju svartahafi eilífðarinnar og okkur var ekki ætlað að ferðast langt þaðan.“ segir til að mynda í upphafi sögunnar Kall Cthulhu.