Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá bílaumferð eykst

18.11.2019 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá bílaumferð hefur aukist mikið hér á landi undanfarin ár. Umhverfisstofnun hvetur fólk til að breyta ferðavenjum og draga úr notkun einkabílsins til að sporna gegn hnattrænni hlýnun.

Fjölgun ferðamanna hefur áhrif

Árið 2005 var losun gróðurhúsalofttegunda frá bílaumferð 26% af heildarlosun á Íslandi. Hlutfallið hefur hækkað töluvert og var 34% árið 2017. Tölur frá 2018 liggja ekki fyrir. Frá þessu er greint á vef Umhverfisstofnunnar. Hlutfallið er reiknað út frá sölutölum fyrir eldsneyti. Sigríður Rós Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að fjölgun ferðamanna hafi haft sitt að segja. 

„Mín tilfinning er að þetta sé bara sambland af báðu, bæði Íslendingar eru að keyra meira og ferðamenn eru orðnir fleiri," segir Sigríður.

Margir aðrir kostir í stöðunni

Til þess að snúa þessari þróun við sé mikilvægt að breyta ferðavenjum.  

„Best væri náttúrulega að reyna að nota aðra samgöngumáta eins og að hjóla eða ganga, það er náttúrulega engin losun frá því. Annað væri að auðvitað að nota almenningssamgöngur sem eru mun umhverfisvænni en að keyra einkabílinn. Einnig væri hægt að fá sér hreinorkubíla, sem væru þá rafmagns- eða vetnisbílar."