Loksins flogið til Ísafjarðar

16.01.2020 - 14:06
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Flogið var til og frá Vestfjörðum í morgun eftir drjúga bið þar sem ófært hefur verið landleiðina og lítið flogið. Meðal þeirra sem fóru vestur eða héldu suður í morgun var fólk sem þurft hafði að bíða frá því á sunnudag og mánudag eftir að komast leiðar sinnar. „Ég treysti ekki á síðasta dag ef ég ætla að fara eitthvað,“ sagði Svanfríður Kristjánsdóttir frá Bolungarvík áður en hún flaug suður. Hún er á leið til Kanaríeyja á morgun og ætlaði að vera farin suður á mánudag til að vera örugg.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir fréttamaður og Eggert Þór Jónsson tökumaður flugu til Ísafjarðar í morgun. Þau tóku viðtöl í flugstöðinni við fólk sem var að koma vestur eða búa sig undir flug suður.

Flaug suður til að sjá barn vinkonu sinnar

Heiða Mist Kristjánsdóttir hafði beðið eftir flugi vestur frá því á sunnudag. Hún fór suður til að heimsækja vinkonu sína. „Hún var að eiga barn, þá gat ég varið meiri tíma með barninu,“ sagði Heiða Mist. Hún kvaðst hafa verið ákveðin að fara suður þótt svo hún vissi að það gæti orðið erfitt að komast til baka. 

Rúnar Óli Karsson hafði beðið eftir flugi frá því á mánudag. „Ég var svo sem í góðu yfirlæti hjá frænku minni en hafði önnur plön en að vera fastur fyrir sunnan svona lengi. Það var ekkert hægt að keyra eða neitt,“ sagði Rúnar Óli nýkominn vestur. „Yfirleitt þegar eru vandræði með flug getur maður keyrt. Ég keyrði nú að norðan um daginn. Þá tók það einhvern einn og hálfan sólarhring í hálku. Svona er þetta bara. Maður reynir að taka þessu bara með stóískri ró.“

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Stigið upp í flugvél á leiðinni suður.

Rétt sleppur til Kanarí

„Ég ætlaði á mánudag. Ég er að fara til Kanarí á morgun svo ég rétt slepp suður,“ sagði Svanfríður Kristjánsdóttir rétt áður en hún flaug suður. Hún sagðist vön þessu brasi á samgöngum. „Ég treysti ekki á síðasta dag ef ég ætla að fara eitthvað.“

Margvíslegur varningur barst flugleiðina til Ísafjarðar í dag. Þar á meðal mátti sjá marga bunka af dagblöðum sem ekki hafði tekist að flytja þangað síðustu daga. Fréttamaður RÚV á flugvellinum var þó fullvissaður um að þau yrðu lesin upp til agna.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Dagblöðin berast vestur.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi