Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lokað vegna smita á Landakoti og Barnaspítala Hringsins

26.03.2020 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Innlagnir hafa verið bannaðar á Landakotsspítala vegna COVID-19 smita þar. Unnið er að því að rekja smitin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd Landspítala. Á vefnum covid.is kom fram að þrír á tíræðisaldri hefði sýkst af kórónuveirunni.

Rjóðrinu verður svo lokað á næstu dögum vegna COVID-19 smita á Barnaspítala Hringsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbraðgsstjórn og farsóttanefnd Landspítalans. Rjóður er hjúkrunar-, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og langveik fötluð börn.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að upp hafi komið smit á Landspítalanum sem séu tilkomin vegna samskipta utan Landspítala. „Afar brýnt er að starfsmenn gæti sérstaklega að sér utan vinnustaðarins og fari í einu og öllu að tilmælum sóttvarnalæknis.“

Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd ítrekar við starfsmenn að forðast eins og mögulegt er samneyti við aðra utan vinnu, í ljósi smitvarna.

17 hafa verið lagðir inn á sjúkrahús með staðfest COVID-19 smit, þar af eru þrír í öndunarvél. Þetta eru tveir karlar og ein kona.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV