Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loka nokkrum Icelandair hótelum tímabundið

22.03.2020 - 22:31
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Ferðamönnum hefur hríðfækkað vegna COVID-19 faraldursins og því hefur verið ákveðið að loka nokkrum hótela í Icelandair hotels keðjunni. Hótelinu Konsúlat í Reykjavík hefur verið lokað og á morgun verður Canopy by Hilton Reykjavik City Centre, Reykjavík Natura, Marina og Öldu lokað. Þeir gestir hótelkeðjunnar sem eftir eru fara á Hilton Reykjavík Nordica, að sögn Magneu Þóreyjar Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra.

Hún segir að það sé orðið ansi rólegt á hótelunum og því hafi verið gripið til þessara ráðstafana. Staðan sé stöðugt metin. Nokkrum hótela Icelandair á landsbyggðinni hefur verið lokað en enn er opið á Akureyri og Héraði, að sögn Magneu. 

Starfsmaður á Icelandair hótelinu við Mývatn greindist með COVID-19 og segir Magnea að það smit sé í sínu rétta ferli hjá sóttvarnayfirvöldum. Því hóteli hefur verið lokað og þar voru einnig fáir gestir. Því var lokað í morgun þegar síðustu gestirnir luku dvöl sinni.