Lokað verður fyrir aðgang að deilisíðunum deildu.net og Piratebay hjá öllum helstu fjarskiptafyrirtækjum landsins, óháð því undir hvaða léni síðan er hýst.
Rétthafasamtök og fjarskiptafyrirtæki á Íslandi ætla að framfylgja lögbanni héraðsdóms og loka aðgangi að deilisíðunum deildu.net og Piratebay. Samkvæmt túlkun þeirra á lögbanninu verður aðgangi að síðunum lokað, óháð því undir hvaða léni síðan er hýst.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í fyrra lögbann á aðgang netnotenda Vodafone og Hringdu að að lénunum deildu.net, deildu.com, thepiratebay.se, thepiratebay.sx og thepiratebay.org. Nú hefur náðst samkomulag við helstu fjarskiptafyrirtæki landsins um að loka á vefsíðurnar, svo lokað verður á aðgang annarra en viðskiptavina Hringdu og Vodafone. Notendur vefsíðanna hafa fram til þessa færst sjálfkrafa yfir á önnur lén, en gera má ráð fyrir að lokað verði fyrir þann eiginleika nú.
STEF höfðaði málið í fyrra. Nú hafa fleiri rétthafasamtök bæst í hópinn; Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði.
Tugir þúsunda íslenskra tölvunotenda hafa nýtt sér vefsíðuna deildu.net til að sækja svokallaðar torrent-skrár sem gera þeim kleift að deila tónlist, myndböndum og öðru efni sín á milli. Mikið af höfundaréttarvörðu efni er þar á meðal.