Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglustjórar gáttaðir á viðtali við Harald

15.09.2019 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglustjórar eru gáttaðir á viðtali sem birtist við ríkislögreglustjóra í Morgunblaðinu um helgina. Formaður lögreglustjórafélagsins segir lögreglustjóra ætla að ræða saman á morgun og fara yfir viðtalið og atburðarás síðustu daga.

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að gagnrýnin á embættið að undanförnu væri hluti af markvissri rógsherferð og markmiðið væri að hrekja hann úr embætti. Rangfærslum væri vísvitandi dreift sem og rógburði um hann. Þá sagði hann aðspurður að ef til starfsloka kæmi myndi það kalla á enn ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna bak við tjöldin.

Viðtalið vakti nokkra athygli. Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, sagðist í samtali við mbl.is  vorkenna ríkislögreglustjóra að vera búinn að koma sér í þessa stöðu. Haraldur svaraði að bragði og taldi ummæli Arinbjarnar vera hluti af rógsherferðinni. 

Þeir lögreglustjórar sem fréttastofa ræddi við í morgun sögðust vera gáttaðir á viðtalinu við Harald. Þeir töldu ekki rétt að tjá sig um það opinberlega og sögðu að yfirlýsing Lögreglustjórafélagsins frá því fyrir viku stæði enn fyrir sínu.  Þar var því hafnað að valdabarátta og togstreita um fjármuni ætti sér á milli lögregluembætta í landinu. 

Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórar hafa deilt um nokkur fagleg mál, meðal annars bílamiðstöð ríkislögreglustjóra sem dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að leggja niður í núverandi mynd. Þá óskaði ráðuneytið eftir heildarúttekt ríkisendurskoðunar á embætti ríkislögreglustjóra. 

Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélagsins, sagði í samtali við fréttastofu að lögreglustjórar landsins ætluðu að funda á morgun og fara yfir atburðarás síðustu daga og viðtalið við ríkislögreglustjóra. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. 

Haraldur er ekki lengur félagsmaður í lögreglustjórafélaginu en hann sagði sig úr félaginu í maí síðastliðnum.  Í bréfi til formanns félagsins sagði hann að það mætti færa fyrir því rök að „óhæði ríkislögreglustjóra gagnvart lögreglustjórum sé skýrara og óumdeildara standi hann utan félagsins.“

Ekki náðist í Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, en haft var eftir henni á vef Fréttablaðsins í gærkvöld að ekki væri tímabært að ræða sérstakar aðgerðir eða niðurstöður skoðunar hennar á embætti ríkislögreglustjóra.

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Úlfar Lúðvíksson, formaður lögreglustjórafélagsins.