Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglumaður fékk svikapóst í nafni Valitor

03.05.2019 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Guðmundur Fylkisson lögreglumaður fékk í dag sendan svikapóst á netfang sitt hjá lögreglunni þar sem reynt var að blekkja vegna meintra kreditkortaviðskipta hans í erlendri netverslun. Pósturinn leit út fyrir að vera sendur af greiðslukortafyrirtækinu Valitor.

Í samtali við fréttastofu sagði Guðmundur að hann hafi strax áttað sig á því að ekki væri allt með felldu. Pósturinn var merktur sem hugsanlegur ruslpóstur og netfang sendanda augljóslega ekki tengt Valitor á nokkurn hátt.

Í póstinum, sem er skrifaður á bjagaðri íslensku, segir að móttekin hafi verið „viðskiptabeiðni af kreditkortinu þínu með IP-tölu utan Íslands“ og af þessum sökum hafi þetta ferli verið stöðvað í 12 klukkustundir.

„Ef þú ert eigandi þessarar færslu, ekki gera neitt og hundsa þennan skilaboð. Ef þessi viðskipti voru gerð af annarri manneskju, Þú verður að hætta við viðskiptin og óska eftir endurgreiðslu núna með því að smella á tengilinn hér að neðan.

Við munum senda þér ógildingartilkynningu í farsímanum þínum eftir að þú hefur lokið við afpöntuninni.“

Í póstinum var hlekkur sem viðtakandi átti að smella á en Guðmundur lét ekki blekkjast og eyddi póstinum.

Í mars í fyrra sendi Valitor frá sér tilkynningu þar sem varað var við tölvupóstum sem sendir voru í nafni fyrirtækisins. Þeir voru samskonar og sá sem Guðmundur fékk. Í tilkynningunni segir að Valitor biðji aldrei um slíkar upplýsingar í tölvupósti. „Best er að eyða póstinum strax,“ sagði í tilkynningunni, fyrirtækið hafi ekki orðið fyrir tölvuárás heldur væri um að ræða svikapóst til almennings.