Lögreglan stígur grænt skref

23.01.2020 - 14:26
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Allar lögreglustöðvar á Norðurlandi eystra hafa fengið viðurkenningu fyrir að hafa tekið fyrsta Græna skrefið í opinberum rekstri. Lögreglustjóri er ánægð með skrefið og þegar farin að huga að því næsta.

Lögreglustöðvarnar á Akureyri, Dalvík, Húsavík, Siglufirði og Þórshöfn hafa fengið viðurkenningu frá umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að hafa tekið fyrsta græna skrefið í opinberum rekstri. 

Græn skref í ríkisrekstri eru hvatakerfi fyrir allar stofnanir ríkisins sem vilja vinna markvisst að umhverfismálum. Við innleiðingu grænna skrefa er gátlistum fylgt og viðurkenningar eru síðan veittar fyrir hvert skref sem tekið er, en þau eru samtals fimm.

Eitt skref í einu

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri umdæmisins er ánægð með að fyrsta skrefið hafi verið tekið. Með þessu vinni þau markvisst að umhverfismálum og dragi úr umhverfisáhrifum. Hún segir að Umhverfisstofnun hafi komið og kynnt verkefnið fyrir þeim, þau hafi strax ákveðið að taka þátt og hafið undirbúning. Fyrsta skrefið felst meðal annars í því að flokka rusl, spara rafmagn, nota umhverfisvænar hreinsivörur og margnota borðbúnað. Sams konar kerfi hafi verið komið upp á öllum starfsstöðvum og þær hafi allar staðist skoðun í desember.

Hún segir starfsfólkið taka mjög vel í þetta en neitar því ekki að það hafi verið pínu havarí í byrjun þegar rusladallarnir hurfu frá skrifborðunum. Spurð hvort þau stefni á að klára skrefin fimm segir hún hlæjandi að þau ætli nú bara að taka eitt skref í einu en séu farin að huga að skrefi númer tvö.