Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lögreglan getur lítið gert vegna skutlara

20.05.2015 - 22:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mörg þúsund manns stunda svokallaðar skutlsíður á Facebook, þar sem einstaklingar bjóða fólki að keyra það milli staða gegn gjaldi. Lögreglan getur lítið aðhafst vegna málsins.

„Vantar þig far eða ert þú að skutla?
Póstaðu því á vegginn og athugaðu hvort einhver sé ekki til í að bjarga þér.“

Þannig hljóðar lýsing á lokuðum hópi á Facebook, þar sem fólk getur fengið far með bíl gegn gjaldi. Bílstjórar auglýsa gjarnan að þeir séu lausir og tilbúnir til að skutla fólki gegn greiðslu, og dæmi eru um að auglýst sé eftir bíl til að flytja húsgögn.

Samkvæmt lögum um leigubifreiðar mega einungis þeir sem hafa til þess tilskilin leyfi keyra farþega. Strangar reglur gilda um leigubíla og leigubílstjóra, engu að síður virðist þjónustan sem er í boði á skutlsíðum vera á gráu svæði. Leigubílstjórar kærðu í fyrra til lögreglu leiguakstur, sem stundaður er án tilskilinna leyfa.
Að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá umferðardeild lögreglunnar, bíður lögreglan niðurstöðu fulltrúa ákærusviðs lögreglunnar. Þangað til geti hún ekkert aðhafst vegna málsins. Hann bendir á að farþegar taki ákveðna áhættu þegar þeir fara upp í bíl með ókunnugum.

Innanríkisráðherra lagði í byrjun árs fram frumvarp til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni. Frumvarpið er nú á borði umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Því er meðal annars ætlað að taka á þessum akstri. Samkvæmt núgildandi lögum hefur Samgöngustofa heimild til að svipta atvinnubílstjóra leyfi, gerist hann brotlegur við lög, en getur eðli málsins samkvæmt ekki svipt þann leyfi sem ekki hefur það.

Í lagafrumvarpinu er kveðið á um að beita megi stjórnvaldssekt, hvern þann sem gerist brotlegur við lögin, til að mynda ef hann ekur með farþega án þess að hafa til þess leyfi. Sektir á einstaklinga geta numið frá 10 þúsund krónum upp í 5 milljónir króna. Harkið gæti því fljótlega hætt að borga sig.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV