Lögreglan almennt ánægð með hátíðarhöldin

05.08.2019 - 19:37
Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - Aðsend mynd
Hátíðarhöld virðast hafa farið vel fram um helgina ef marka má upplýsingar frá lögregluembættum. Útihátíðir voru víða, með tilheyrandi mannfjölda og gleði.

Í Reykjavík voru haldnar innipúkahátíðir fyrir þá sem ekki treystu sér til að leggja land undir fót til að komast á skemmtun. Tæp fjögur hundruð útköll rötuðu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir helgina, en hún gefur ekki upp hversu mörg þeirra teljast alvarleg.

Lögreglan í Eyjum segir að Þjóðhátíðin þar hafi farið vel fram. Engu að síður voru útköllin samtals tvö hundruð tuttugu og tvö. Sautján hegningarlagabrot voru framin, þar af níu líkamsárásir og tvær þeirra alvarlegar. Önnur árásin átti sér stað á VIP-tjaldsvæðinu við Áshamar, þar sem einn maður höfuðkúpubrotnaði og liggur enn á sjúkrahúsi. Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar eftir vitnum að árásinni. Tennur voru brotnar í öðrum, og þriðji maðurinn kjálkabrotnaði í Eyjum um helgina. Tuttugu og fjögur fíkniefnabrot rötuðu inn á borð lögreglu, og tveir voru gripnir við sölu fíkniefna.

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu var haldin á Akureyri. Þar komu hundrað og sextíu mál inn á borð lögreglu. Þrjátíu og fimm voru teknir fyrir of hraðan akstur. Tvær líkamsárásir voru kærðar, önnur þeirra stórfelld. Sex gistu fangageymslur og einn var tekinn fyrir vörslu fíkniefna. Lögreglufulltrúi á Akureyri segir engu að síður að heilt á litið hafi skemmtanahald farið vel fram.

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta fór fram í Bolungarvík. Þar var mjög rólegt yfir helgina, að sögn lögreglufulltrúa á Ísafirði. Allt í allt sinnti lögregla um hundrað og þrjátíu útköllum. Flest voru þau vegna hraðaaksturs. Einn var tekinn ölvaður undir stýri. Engin fíkniefnabrot komu upp, engin líkamsárás og enginn gisti fangaklefa.

Í Neskaupstað var Neistaflug. Að sögn lögreglustjóra á Austurlandi var dálítill erill hjá lögreglunni en engin alvarleg mál. Hvorki líkamsárásir né fíkniefnabrot og enginn gisti fangaklefa.

Hátíðin Flúðir um versló fór fram á Flúðum um verslunarmannahelgina. Að sögn lögreglufulltrúa á Suðurlandi fór helgin fram úr björtustu vonum lögreglunnar. Nokkuð var um umferðarlagabrot og hátt í áttatíu manns voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Um tuttugu manns voru teknir ölvaðir undir stýri. Ein minni háttar líkamsárás var kærð aðfaranótt laugardagsins og þrjú fíkniefnamál rötuðu inn á borð lögreglu. Loks lést bandarískur ferðamaður af slysförum eftir að hann féll í Úlfljótsvatn. 

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi