Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögregla lagði hald á kannabis í söluumbúðum

22.09.2019 - 13:13
Þurrkuð blóm kannabisplöntu.
 Mynd: Pixabay
Lögreglan á Norðurlandi vestra lagði í gær hald á tæplega áttatíu grömm af efni sem talið er kannabis í söluumbúðum. Efnið fannst þegar bíll var stöðvaður og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Fíkniefnahundur aðstoðaði við fundinn en efnið var vandlega falið í vélarrými bílsins. Mennirnir sem voru í bílnum gista nú fangageymslur.

Þetta kemur fram á Facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Í nógu að snúast hjá fíkniefnahundi og lögreglu

Þar segir að fíkniefnamálum hafi fjölgað talsvert, sem sé áhyggjuefni. Fíkniefnahundur og lögreglumenn hafi haft í nógu að snúast frá því um síðustu helgi. 

Sex ökumenn hafi verið stöðvaðir við akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Á sama tímabili hafi mál vegna vörslu slíkra efna verið fimm.

Meðal annars hafi verið lagt hald á um sextíu grömm af meintum kannabisefnum, ætluðum til sölu, í síðustu viku. Efnin fundust við húsleit og í ökutækjum.