Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögregla biður fólk að halda kyrru fyrir á N-vestra

09.12.2019 - 22:08
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Lögreglan á Norðurlandi vestra biðlar til fólks að halda kyrru fyrir á morgun vegna veðurs. Búast má við víðtækum vegalokunum í umdæminu strax í fyrramálið. Allt skólahald fellur niður á morgun og á miðvikudag.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Þar segir að Almannavarnarnefndir Skagafjarðar og Húnavatnssýslna hafi lokið fundi vegna yfirvofandi óveðursins. Nefndirnar líti málið alvarlegum augum, enda sé í fyrsta skipti gefin út rauð viðvörun vegna veðurs hér á landi. 

Fólki er bent á að það geti verið erfitt fyrir viðbragðsaðila að komast á vettvang og geti tekið langan tíma, gangi veðurspá að fullu eftir. Þá er minnt á neyðarnúmerið 112 og biðlað til fólks að halda kyrru fyrir heima, fylgjast vel með fréttum og láta þær berast.

Lögreglan bendir fólki á að huga sérstaklega að öllum lausamunum utandyra sem gætu ollið tjóni eða skaða. Þá er smábátaeigendum bent á að huga að bátum sínum og festa þá vel, sjávarmál verði í hærra lagi. Rafmagn geti einnig raskast á svæðinu vegna veðurs. 

Tekið er fram að allt skólahald í umdæminu; leik-, grunn- og framhaldsskólahald, falli niður á morgun og á miðvikudag. Þá verði öll íþróttamannvirki lokuð.