Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lögmanni Mani og fjölskyldu veittur frestur

18.02.2020 - 20:32
Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir - RÚV
Kærunefnd útlendingamála hefur veitt Claudie Ashonie Wilson, lögmanni Mani Shahidi og fjölskyldu, frest til 24. febrúar til að skila inn frekari gögnum í málinu.

„Þetta er frestur sem ég sem lögmaður fæ til að leggja fram frekari gögn og greinargerð í málinu. Þetta þýðir í raun að ákvarðanatöku er frestað þar til að gögnin berast þeim,“ segir Claudie í samtali við fréttastofu. Fresturinn hafi aftur á móti ekkert að segja til um það hvort fjölskyldan fái að dvelja áfram á landinu þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í málinu. 

„Það að ég fái frest sem frestar ákvörðunartöku þýðir ekki að hann hafi fengið heimild til dvalar á meðan þetta er allt í gangi. Þetta er það sem ég hef ítrekað við stjórnvöld að fá skýr svör við.“

Þá hafi lögreglan komið því áleiðiss að á meðan að verkbeiðni Útlendingastofnunar hafi ekki verið afturkölluð verði brottvísuninni framfylgt. 

„Læknisfræðilega óforsvaranlegt“ að vísa Mani úr landi

Til stóð að vísa fjölskyldunni úr landi aðfaranótt mánudags. Á sunnudagskvöld var Mani lagður inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna vanheilsu. Sérfræðingar þar lögðust gegn því að drengnum yrði vísað úr landi og var brottvísun fjölskyldunnar því frestað.  Til stendur að vísa fjölskyldunni til Portúgal, en þangað komu þau fyrst á leið sinni frá heimalandinu. Maní óttast mjög að verða sendur til Írans frá Portúgal. Hann kom út sem trans drengur hér á Íslandi. 

„Hann er núna á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Sérfræðingar þar telja læknisfræðilega óforsvaranlegt að honum verði vísað úr landi, “ segir Claudie. Útlendingastofnun beri skylda til að afla nýs vottorðs sem staðfesti það að drengurinn sé ferðafær. „Án þess myndi ég halda að þetta væri ennþá meira brot gagnvart honum - að honum yrði vísað úr landi gegn læknisráði.“ 

Mynd með færslu
Claudia Ashonie Wilson, lögmaður Maní og fjölskyldu. Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
Claudie Ashonie Wilson, lögmaður fjölskyldunnar.