Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lögmaður segir fordæmi fyrir frestun brottvísunar

16.02.2020 - 19:24
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV
Trans piltur frá Íran segist fyrst hafa fundið fyrir öryggi á Íslandi og treyst sér til þess að segja frá því að hann væri trans. Lögmaður fjölskyldu piltsins segir fordæmi fyrir því að stjórnvöld fresti brottvísun í málum sem varða börn og því skuli sama gilda fyrir þetta barn.

Verður vísað úr landi í nótt

Maní Shahidi er sautján ára trans strákur frá Íran. Fjölskylda hans kom hingað fyrir tæpu ári og óskaði eftir alþjóðlegri vernd. Þeim var synjað og það á að senda þau úr landi í fyrramálið. „Ef ég gæti fengið að vera hér þá væri ég hamingjusamur,“ segir Maní. „Í fyrsta sinn á ævi minni finnst mér ég vera öruggur, og ég treysti mér fyrst til þess að segja foreldrum mínum frá því að ég væri trans eftir að ég kom til Íslands,“ segir hann.

Til stendur að vísa fjölskyldunni til Portúgal, en þangað komu þau fyrst á leið sinni frá heimalandinu. Maní óttast mjög að verða sendur til Írans frá Portúgal. „Hinsegin og trans fólk hefur engin réttindi í Íran, það er bara tekið af lífi,“ segir hann.

Segir ekki hafa verið tekið nægilegt tillit til stöðu barnsins

Claudia Ashonie Wilson, lögmaður fjölskyldunnar, segir að fyrir liggi beiðni um endurupptöku málsins. Stjórnvöld ætli þó ekki að fresta framkvæmd fyrri ákvörðunar, heldur vísa þeim aftur til Portúgal áður en endurupptökubeiðnin verður tekin fyrir. „Þegar maður lítur til fordæma, sérstaklega er varðar barnafjölskyldur, ætti það að leiða til þess að brottvísun verði frestað þar til að niðurstaða liggur fyrir,“ segir Claudia. „Við minnum á að stjórnvöld eru bundin af barnasáttmálanum og jafnrétti ætti að gilda gagnvart öllum börnum sem eru innan lögsögu okkar.“

Claudia segir að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til stöðu barnsins í ferlinu. „Í ljósi þess að drengurinn sjálfur hefur ekki fengið að tjá sig um mál sitt. Það er líka liður í því að gæta réttar barns samkvæmt barnasáttmálanum, að börn fái að tjá sig um mál sem varða þau sjálf.“ 

Mynd með færslu
Claudia Ashonie Wilson, lögmaður Maní og fjölskyldu. Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
Claudia Ashonie Wilson, lögmaður fjölskyldunnar

„Getur ekki verið barni fyrir bestu“

En væri það slæmt ef fjölskyldan verður send úr landi og til Portúgal? „Það er alveg ljóst að strákurinn er kominn á þann stað þar sem hann finnur í fyrsta sinn í lífi sínu fyrir öryggi, það mikið að hann gat tjáð sig um hver hann væri í raun, sem sagt trans strákur. Það sem barni er fyrir bestu er það sem stjórnvöldum ber að hafa í fyrirrúmi og það að raska lífi þessa drengs, það getur ekki verið barni fyrir bestu,“ segir Claudia. „Það var að berast okkur bréf frá sálfræðingi sem lýsir því yfir að hún telji rétt að mat fari fram á andlegu ástandi drengsins og ég tel rétt að stjórnvöld hlusti á það,“ segir hún.

Sigríður Birna Valsdóttir, ráðgjafi hjá Samtökunum '78, segir stöðu transbarna mjög viðkvæma. „Trans börn og ungmenni, sem ekki upplifa stuðning, þau eru bara í verulega mikilli hættu, þau eru í helmingi meiri hættu en félagar þeirra á vanlíðan og kvíða og sjálfsvígshugsunum og jafnvel því að taka líf sitt. Og við megum ekki láta þetta gerast,“ segir Sigríður Birna.