Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lögin stuðli ekki að kynjajafnrétti í íþróttum

19.02.2018 - 16:10
Mynd með færslu
Andrea Jacobsen fagnar einu af mörkum sínum fyrir Fjölni gegn Val í Olísdeildinni í gærkvöld. Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV
Ekki er tekið tillit til kynjasjónarmiða við lagasetningu þegar kemur að íþróttum, né við stefnumótun og úthlutun fjárveitinga ríkisins til íþróttahreyfingarinnar. Þetta er niðurstaða rannsóknar Maríu Rúnar Bjarnadóttur, doktorsnema við Sussex háskóla, sem kynntar voru á málþingi í Háskólanum í Reykjavík í dag. 

„Hin lagalega umgjörð íþrótta á Íslandi tekur ekki mið af kynjasjónarmiðum. Sömuleiðis stefnumótun á vegum stjórnvalda, þar gætir ekki kynjasjónamiða nema að mjög takmörkuðu leyti og þá varðandi börnin í skólastarfinu sem er fyrst og fremst verkefni sveitarfélaganna að tryggja. Sjónarmið um jafnrétti kynjanna gætir ekki heldur í því hvernig stjórnvöld úthluta fjármagni til íþróttahreyfingarinnar,“ segir María Rún.

Stjórnvöld geti nýtt þau tæki sem hún hafi til þess að vinna að úrbótum, t.d. í nýrri íþróttastefnu og með kynjaðri fjárlagagerð.