Undanúrslitin fara fram í Háskólabíói, laugardagana 10. og 17. febrúar. Úrslitakvöldið verður haldið með pomp og prakt í Laugardalshöll 3. mars en, eins og sl. ár mun erlend Eurovision-stjarna stíga þar á svið. Keppnirnar þrjár verða sýndar í beinni útsendingu á RÚV.
Lögin verða flutt á íslensku í undanúrslitum, sex lög keppa hvort kvöld. Þau þrjú lög sem hljóta flest atkvæði í símakosningu hvort undankvöld tryggja sér sæti í úrslitum. Því keppa sex lög til úrslita í Söngvakeppninni í Laugardalshöll 3. mars. RÚV hefur þó heimild til að bæta auka lagi, svokölluðum svartapétri, í úrslitin. Líkt og síðustu ár býðst almenningi að kaupa miða á viðburðina og hefst miðasala þriðjudaginn 30. janúar kl. 12.00 á tix.is. Kynnir keppninnar í ár er Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, en hún er einnig í framkvæmdastjórn keppninnar eins og síðastliðin ár.
Sigurlag Söngvakeppninnar verður framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin verður í Lissabon í Portúgal dagana 8., 10. og 12. maí. Stórskotalið úr íslensku tónlistarsenunni í bland við spennandi nýstirni flytur lögin tólf í ár. Hér fyrir neðan má sjá höfunda og flytjendur laganna tólf.