Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögin handónýtt plagg ef það má hunsa þau

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Lög um hópuppsagnir eru handónýtt plagg ef fyrirtæki sem skráð eru á markað geta hunsað þau, segir varaformaður Samtaka starfsfólks fjármálafyrirtækja. Hann segir skráð félög í Kauphöll ekki njóta sérréttinda þegar komi að samráði við trúnaðarmenn. Samtökin athuga nú lögmæti hópuppsagna í vikunni.

4% félaga í SSF missti vinnuna

Starfsfólki í Arion banka, Íslandsbanka, Valitor, Landsbanka og Seðlabanka hefur verið sagt upp í september. Langflestum hjá Arion banka um 100 og 20 til 25 hjá Íslandsbanka. 

„Í þessum mánuði held ég að það hafi hátt í 150 manns misst vinnuna, svona sirka 4% af félagsmönnum. Þannig að fyrir félag eins og okkar er þetta alveg geysilega stórt högg,“ segir Ari Skúlason varaformaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Samtökin bjóða upp á margs konar aðstoð fyrir þá sem missa vinnuna.

"Það má af því þetta eru bankamenn“

Það er hins vegar hvernig staðið var að stærstu hópuppsögninni í Arion banka sem stendur í fólki.

Bankastjóri Arion banka sagði í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld að trúnaðarmönnum hafi verið sagt frá uppsögnunum þá um morguninn þegar fólkinu var sagt upp og vísaði því á bug að farið hefði verið á svig við lög um hópuppsagnir og að líka þyrfti að fara að lögum um verðbréfamarkað. 

Í 5. og 6. grein laga um hópuppsagnir segir að samráð skuli haft við trúnaðarmenn og gefa þeim tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun er tekin. 

„Samráðið var sama og ekkert,“ segir Ari. 

„Það er ekkert sem segir það að skráð félag njóti einhverra sérréttinda. Og maður gæti bara rétt ímyndað sér ef það kæmi upp staða að eins og t.d. Eimskipafélag Íslands, sem er líka skráð félag, segði upp 120 hafnarverkamönnum. Það hefði örugglega ekki verið sagt það sama að það þyrfti ekkert endilega að hafa samráð af því að þetta væri skráð félag osfrv. En af því að þetta eru bankamenn þá má það.“

Lögfræðingar samtakanna eru að fara yfir málið og eins er Vinnumálastofnun að því. 

„Ef að Vinnumálastofnun segir að reglan sé skýr nú þá verðum við bara að setjast niður og gefast upp vegna þess að þá er náttúrulega algerlega augljóst að lögin um hópuppsagnir eru handónýtt plagg. Þannig að þá þarf náttúrulega að fara að vinna að því hvað ætlum við að gera í stöðunni.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfsfólk í höfuðstöðvum Arion banka fékk mest að kenna á uppsögnunum.