Löggan á Norðurlandi vestra skilar milljónum

17.09.2019 - 15:37
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á Norðurlandi vestra sektaði ökumenn um rúmlega 322 milljónir króna vegna umferðarlagabrota á fyrstu átta mánuðum ársins. Rekstrarframlag ríkisins til embættisins á sama tíma eru hins vegar um 245 milljónir króna. 

„Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra er því að skila 77 milljónum í ríkissjóð á umræddu tímabili, sem er vel, að ógleymdum þeim sparnaði sem fækkun umferðaslysa hefur í för með sér sem er gríðarlegur og er í raun vart hægt að meta til fjár,“ segir í færslu á Facebook-síðu lögregluumdæmisins. 

Þann 1. september voru kærur vegna umferðarlagabrota 5399 og af því voru 5077 vegna hraðaaksturs. Lögreglan segir þetta vera sambærilegar tölur og fyrir árið 2018, en það ár fækkaði umferðaróhöppum í umdæminu um 26% frá árinu á undan. Slysatölur fyrir árið 2019 eru sömuleiðis sambærilegar við árið á undan.
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi