Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lögðu hald á kannabis og klór fyrir norðan

24.11.2015 - 12:19
Kannabisplöntur í gróðurhúsi í Hollandi.
 Mynd: Mateusz Atroszko - Freeimages
Kannabisplöntur voru gerðar upptækar í Svarfaðardal í gær. Grunaðir ræktendur voru verðlaunaðir í fyrra fyrir nýsköpun í lífrænni ræktun. Lögreglan lagði einnig hald á klórblöndu sem boðin var til sölu í lækningaskyni á netinu. Landlæknir varaði við sambærilegri klórblöndu árið 2010.

58 kannabisplöntur og tugir lítrar af klórblöndu
Lögreglan á Norðurlandi eystra gerði í gær upptækar 58 kannabisplöntur á bæ í Svarfaðardal. Einng lagði hún hald á búnað til ræktunar. Við húsleit á Akureyri voru teknir nokkir tugir lítra af klórblöndu og lyfjaglös undir vökva. Þrír menn voru handteknir en sleppt að loknum yfirheyrslum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Húsleitin var gerð eftir að heilbrigðiseftirlit Norðurlands lagði fram kæru þess efnis að þar væri verið að búa til lyfjablöndu, úr klórblöndu og sítrónusýru, ætlaða til lækninga. Stundin greindi frá því í gær að Lyfjastofnun hefði borist ábending um að verið væri að búa til og dreifa klórblöndu í lækningaskyni á Akureyri. Erindið var sent til heilbrigðiseftirlits Norðurlands. Alfreð Schiöth heilbrigðisfulltrúi á Akureyri sagði í samtali við fréttastofu að hann hefði metið málið þess eðlis að því bæri að vísa til lögreglu.

Varað við lyfjablöndu sem þessari árið 2010
Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur fyrirtækið Gæðafóður á bak við framleiðslu og dreifingu á lyfjablöndunni. Blandan, sem auglýst er á vefsíðu fyrirtækisins, er sambærileg við svokallaða MMS-blöndu. Árið 2010 sendu sóttvarnalæknir, eitrunarmiðstöð Landspítalans og fleiri út viðvörun um slíka blöndu sem væri beinlínis hættuleg. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að við húsleitina hafi verið lagt hald á nokkra tugi lítra af natríumklóríti, minniháttar magn af sítrónusýru og lyfjaglös undir vökva.

Hlaut fyrstu verðlaun á Atvinnu- og nýsköpunarhelginni á Akureyri
Á vefsíðu Gæðafóðurs kemur fram að fyrirtækið vann fyrstu verðlaun á Atvinnu- og nýsköpunarhelginni á Akureyri í fyrra. Það sérhæfir sig í lífrænni síræktun sem fer fram í sérstökum gámum sem stjórna bæði hita og vökvun. Verðlaunaféð var ein milljón króna.

Lögreglan gerði einnig húsleit á sveitabæ í umdæmi sínu en samkvæmt heimildum fréttastofu er bærinn innst í Svarfaðardal. Ekki er búið á bænum og var hann í útleigu. Þar fundust 58 kannabisplöntur, 100 grömm af kannabisefnum og tæki og tól til ræktunar. Þrír voru handteknir í tengslum við málið og samkvæmt heimildum fréttastofu tengjast einhverjir þeirra bæði kannabisræktuninni og framleiðslu á áðurnefndri klórblöndu.

Uppfært: Bærinn þar sem ræktunin fór fram í Svarfaðardal er bærinn Hæringsstaðir, innarlega í dalnum.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV