Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lögbann á gjaldtöku við hverasvæði

17.07.2014 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Sýslumaðurinn á Húsavík hefur fallist á lögbann vegna innheimtu gjalds af ferðamönnum við hveri austan Námafjalls í Mývatnssveit og við Leirhnjúkssvæðið. Lögbannið tekur gildi þegar gerðarbeiðendur hafa lagt fram fjörutíu milljóna króna tryggingu.

Byrjað var að innheimta gjald af ferðamönnum, sem vildu skoða hveri austan Námafjalls og við Leirhnjúkssvæðið um miðjan júní. Fyrirtæki í ferðaþjónustu mótmæltu harðlega. 17 eiga hlut í Landeigendafélaginu í Reykjahlíð og fór hluti þeirra fram á að gjaldtakan verði stöðvuð. Sýslumaðurinn á Húsavík kvað upp úrskurð í morgun og tekur hann lögbannið til greina, þegar gerðarbeiðendur hafa sett tryggingu sem sýslumaður tekur gilda, að fjárhæð 40 milljónir króna. Frestur til að leggja fram tryggingu er til hádegis, miðvikudaginn 23. júlí. Fréttastofa náði tali af landeiganda sem fór fram á lögbannið. Hann sagðist fagna niðurstöðunni, þar sem sýslumaðurinn hafi tekið lögbannið til greina.