Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Loftslagsvæn steypuuppskrift nær ekkert notuð

Mynd: RÚV / RÚV
Hægt væri að minnka kolefnisspor steypu í íslenskum byggingariðnaði um meira en helming. Þetta segir sérfræðingur. Loftslagsvæn steypa sem hann þróaði hefur vakið lukku víða um heim en hefur lítið sem ekkert verið notuð hér. 

Á Íslandi eru flest hús steypt og þannig hefur það verið lengi. „Okkar efni hefur verið sandur, steinn, vatn og loft og svo tíu prósent sement. Þá fáum við steypu,“ segir Ólafur H. Wallevik, forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins. 

Steypan mengar meira en flugið

Steypa og önnur sementsblönduð efni eru talin ábyrg fyrir um 5-8% heimslosunar. Þau losa margfalt meira en alþjóðaflugið. Sementið er sökudólgurinn en líka það magn sem þarf. Steypa er annað mest notaða efni heims, á eftir vatni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Örfá hús byggð úr vistvænni steypu

Það er uppsveifla í byggingariðnaði. Í fyrra var metár í innflutningi á sementi en við þurfum það ekki allt. Hægt er að framleiða loftslagsvænni steypu með minna sementi. Það má telja þau mannvirki sem byggð hafa verið úr umhverfisvænni steypu á fingrum annarrar handar; stoðveggur í nýrri Búrfellsvirkjun, svansvottað einbýlishús í Urriðaholti og blokk sem IKEA byggði í sama hverfi. Við bætast svo reyndar nokkrar eldri byggingar þar sem alveg óvart var notuð steypa með lægra kolefnisspor, án þess að það hafi verið markmið í sjálfu sér. Það á við um Ráðhús Reykjavíkur, en í kjallara þess var notuð sérstök steypa sem þornar hægt til að koma í veg fyrir sprungumyndun.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ráðhússkjallarinn er úr loftslagsvænni steypu.

Öll þekking til staðar

Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins hefur verið að þróa loftslagsvæna steypu árum saman. „Við höfum alla þekkingu til staðar, stóru stöðvarnar á Íslandi hafa gert slíka steypu. Við höfum bara ekki notað þessa tækni á Íslandi,“ segir Ólafur Wallevik. Verkkaupar hafi einfaldlega ekki beðið um vistvæna steypu. Þá þvælist byggingareglugerð aðeins fyrir. 

Horfir til íslensks kísilryks

Ólafur segir hægt að minnka kolefnisspor steypu í klæddum veggjum um allt að 70%. Í óvörðum veggjum megi minnka það um 15 til 20% án þess að fórna styrk. Uppskrift Ólafs að loftslagsvænni steypu hefur verið notuð í Kína, Norður-Ameríku og Miðausturlöndum en lítið sem ekkert hér. Hann hefur beðið stjórnvöld að leyfa framleiðslu á steypu með lægra sementsmagni. „Þá notar maður svokallaða porselína í staðinn, það frægasta og langbesta er kísilryk og við erum svo heppin að það er gert á Íslandi. Það getur lækkað kolefnissporið allverulega.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV