Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loftmengun getur haft áhrif á fóstur

22.09.2019 - 17:57
epa01897311 A handout released by University Hospital Erlangen provides a picture made with a 3D ultrasonic device by senior physician Tamme Goecke displaying the foetus of the woman pregnant in vigil coma. For the first time ever a woman who fell into
 Mynd: EPA - UNIVERSITY HOSPITAL ERLANGEN
Loftmengun getur haft áhrif á fóstur í móðurkviði, þetta sýnir ný rannsókn. Vísindamenn fundu svifryksagnir, sem þungaðar konur höfðu andað að sér, fósturmegin í fylgjum þeirra.

Þetta er í fyrsta sinn sem rannsókn sýnir fram á að agnir geti komist inn fyrir fylgjutálma með innöndun. Guardian greinir frá. 

Tim Nawrot, kennari við Hasselt-háskóla í Belgíu, sem fór fyrir rannsókninni, sagði að það að agnirnar finnist fósturmegin í fylgjunni gefi til kynna að fóstrin sjálf verði fyrir menguninni.  

Kanna nú áhrif agnanna á fóstur

Vísindamennirnir rannsökuðu tuttugu og fimm fylgjur og fundu agnir í þeim öllum. Fylgni var á milli magns svifryksagna í mæðrunum og þess sem fannst í fylgjunum. Talsverður munur var á magni eftir því hvort mæðurnar bjuggu í grennd við stórar umferðaræðar eða ekki.

Nú vinna vísindamennirnir að því að rannsaka blóð úr fóstrum til að kanna hvort svifryksagnirnar valdi DNA-skemmdum. 

Þarf að draga úr loftmengun til að vernda fóstur

Nawrot segir að fósturskaði geti haft ævilangar afleiðingar. Til að vernda fóstrin verði að draga úr loftmengun. Það sé á ábyrgð stjórnvalda en fólk þurfi líka að gæta þess að forðast fjölfarnari vegi þegar því verði komið við. 

Jonathan Grigg, einn rannsakenda, sagði að niðurstöðurnar minni vissulega á mikilvægi þess að draga úr loftmengun. Hins vegar þurfi að rannsaka frekar hvaða áhrif agnirnar hafi. 

Í frétt Guardian um rannsóknina segir að tengsl loftmengunar og fyrirburafæðinga og fósturláts séu þegar þekkt. Nýja rannsóknin gefi til kynna að svifryksagnirnar eigi sennilega hlut í því.