Loftbólur á yfirborði Kvíárlóns

08.08.2019 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan - Tryggiv Hjörvar - Veðurstofan - Tryggvi Hjörvar
Loftbólur hafa myndast á Kvíárlóni, suðaustan Öræfajökuls, og hljóðið sem heyrist þegar þær koma upp á yfirborðið og springa minnir á hljóð í gosdrykk. Að mati sérfræðinga Veðurstofunnar er ekki hætta á ferðum fyrir ferðafólk vegna gassins.

Veðurstofunni barst ábending um málið síðasta föstudag. Mælingamenn fóru á staðinn til að meta hvort hætta væri á ferðum og hvort gasið væri til marks um aukna virkni í eldfjallinu.

Þeir voru með sérstaka fjölgasmæla sem soga inn loft úr umhverfinu og geta greint koltvísýring, brennisteinsvetni, brennisteinstvíyldi og vetni. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að safna gasinu í trekt undir yfirborðinu þá reyndist það of lítið til að vera greinanlegt. Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að líklega sé þetta koltvísýringur í litlu magni. Slíkt útstreymi koltvísýrings frá eldfjöllum sé all vanalegt og er ekki talið benda til aukinnar virkni í eldfjallinu. Mjög hefur dregið úr jarðskjálftavirkni og þenslu í Öræfajökli á árinu.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi