Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lofa nýjum og betri iPhone eftir tíu daga

10.09.2019 - 19:21
epa07833263 Apple Senior VP of Worldwide Marketing Phil Schiller speaks about the iPhone during the Apple Special Event in the Steve Jobs Theater at Apple Park in Cupertino, California, USA, 10 September 2019.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Apple boðaði þrjár útgáfur af nýjum iPhone 11 síma og snjallúr „sem aldrei sefur“, á sérstökum viðburði fyrirtækisins, í höfuðstöðvum Apple í Kaliforníu í dag. Tæknirisinn lofar betri myndgæðum og kröftugri myndavélum. Nýi síminn virðist vera útbúinn tveimur og jafnvel þremur myndavélum á bakhlið.

Rafhlaða nýja símans á að endast lengur en rafhlöður hinna eldri. Nýju símarnir munu kosta á bilinu 699 til 1.199 dollara, eða um tæpar 90 til 150 þúsund krónur.

Úrið fáanlegt úr títaníum

Nýja úrið er þannig hannað að ávallt er hægt að hafa kveikt á skjámynd þess. Þrátt fyrir það er lofað að rafhlaðan endist í um átján klukkustundir. Auk þess er áttaviti í úrinu, það getur fylgst með og skráð svefnvenjur notandans og þá er það fáanlegt úr títaníum. Eldri útgáfa úranna fæst fyrir lægra verð en Apple hefur selt snjallúrin á hingað til. 

Þá boðar fyrirtækið nýjan og stærri iPad. Að auki stefnir fyrirtækið á að gefa út Apple TV+ efnisveitu í byrjun nóvember. Efnisveitan, sem svipar til Netflix en á að vera ódýrari, býður upp á þætti og kvikmyndir sem ekki eru fáanlegar annars staðar.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

epa07833271 Apple Senior VP Retail and People Dierdre O'Brien speaks during the Apple Special Event in the Steve Jobs Theater at Apple Park in Cupertino, California, USA, 10 September 2019.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Sala farsíma hefur dregist saman að undanförnu

Sala á farsímum hefur dregist saman að undanförnu. Samdrátturinn kom verr við Apple en aðra símaframleiðendur. Fyrirtækið tilkynnti þó um daginn að aldrei áður hefðu jafn margir iPhone símar verið í notkun og nú. 

Greint var frá því í ágúst að vörusala Símans hefði dregist saman um 109 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Orri Hauksson, forstjóri símans, sagði að tekjur af farsímatækjum hefðu dregist saman á milli ára. Það væri í takti við þróun erlendis. Neytendur kjósi að eiga símtækin sín lengur en áður. Þessi þróun hafi þó lítil áhrif á afkomu samstæðunnar.