Ljúfsár gamanmynd þar sem ekkert klikkar

Mynd: Agnes Joy / Agnes Joy

Ljúfsár gamanmynd þar sem ekkert klikkar

29.10.2019 - 13:26

Höfundar

„Handritið og persónusköpunin er það sterk að kvikmyndin fellur aldrei í neinar klisjugildrur eins og hefði verið hætt við með þennan efnivið,“ segir kvikmyndarýnir Lestarinnar sem er um yfir sig hrifinn af Agnesi Joy eftir Silju Hauksdóttur.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Það er óhætt að segja að þetta sé hafi verið gjöfult haust fyrir konur í kvikmyndagerð á Íslandi. Sjónvarpsþættirnir Pabbahelgar eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur hafa slegið í gegn og heimildarmyndirnar Síðasta haustið eftur Yrsu Roca Fannberg og Gósenlandið eftir Ásdísi Thoroddsen hafa verið í bíósýningum undanfarið og heimildarþættirnir Svona fólk eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur hafa einnig vakið mikla athygli en þeir hafa verið í sýningu á RÚV. Nú síðast hefur hefur kvikmyndin Agnes Joy eftir leikstjórann Silju Hauksdóttur verið frumsýnd, það er orðið nokkuð langt síðan Silja frumsýndi sína fyrstu kvikmynd Dís árið 2004, en hún hefur þó alls ekki setið auðum höndum síðan en hún hefur leikstýrt fjölmörgum sjónvarpsþáttum og heimildarmynd í millitíðinni. Handrit myndarinnar skrifa þær Silja, Gagga Jónsdóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsóttir en það byggist á hugmynd Mikaels Torfasonar.

Agnes Joy fjallar um mæðgurnar Agnesi og Rannveigu sem búa á Akranesi ásamt Einari eiginmanni Rannveigar og pabba Agnesar en Agnes er ættleidd frá Filippseyjum. Rannveig er í tilvistarkreppu í ástríðulausu hjónabandi og vinnu sem hún hefur engan áhuga á í fjölskyldufyrirtækinu. Þegar leikarinn og sjarmatröllið Hreinn Hreinsson flytur í næsta hús viðfjölskylduna fer hið viðkvæma jafnvægi endanlega úr skorðum og líf fjölskyldunnar kemst í uppnám.

Agnes Joy er ljúfsár gamanmynd og virðist hafa tekist, líkt og Pabbahelgum, að snerta við taug í áhorfendum sem spegla sig í þessum sögum sem gerast í hversdagslífinu á Íslandi í dag. Það verður að segjast eins og er, það er ekkert sem klikkar í Agnesi Joy, leikurinn, hljóðið, handritið, tónlist Jófríðar Ákadóttur, sviðsmyndin og búningarnir renna saman í dásamlega heild og frábæra kvikmyndaupplifun.  

Með aðalhlutverk fara þær Donna Cruz sem Agnes Joy sem er hér að þreyta frumraun sína í leik, og Katla Margrét Þorgeirsdóttur sem leikur Rannveigu, móður Agnesar, og er samleikur þeirra tveggja bæði áreynslulaus, trúverðugur og áhrifamikill. Þær ganga báðar í gegnum eins konar breytingarskeið hvor á sinn hátt og brjótast út úr hlutverkum sem hafa verið mótuð af öðrum fyrir þær. Anna Kristín Arngrímsdóttir er einnig eftirminnileg og ómissandi í hlutverki ömmu Agnesar og móður Rannveigar, sem fín frú sem hlustar á Útvarp sögu allan liðlangan daginn og neitar að fara á elliheimili þar sem hún sér fram á að þurfa að hljóta umönnun útlendinga, en barnabarnið Agnesi dýrkar hún og dáir.

Hún er birtingarmynd ákveðinnar tegundar hugarmisræmis þar sem hún elskar barnabarn sitt sem er ættleitt frá Filippseyjum um leið og hún er uppfull af fordómum gagnvart útlendingum, sem eflaust eru fóðraðir af útvarpinu, án þess þó að hún sé gerð að skrípamynd og steríótýpu. Það kemur þó hvergi fram beinlínis að hún sé að hlusta á Útvarp sögu, það er mín túlkun. Handritið og persónusköpunin er það sterk að kvikmyndin fellur aldrei í neinar klisjugildrur eins og hefði verið hætt við með þennan efnivið. Það tekst líka einstaklega vel, á bæði beinskeyttan og næman hátt, að sýna þá margvíslegu fordóma sem Agnes þarf að takast á við í sínu daglega lífi sem Íslendingur af asískum uppruna, reynsla sem er leikkonunni Donnu því miður alls ekki ókunnug.

Mynd með færslu
 Mynd: Agnes Joy
Donna Cruz stendur sig frábærlega í frumraun sinni á hvíta tjaldinu.

Það má segja að allar persónurnar í myndinni nái sinni fyllingu, meira að segja karlmennirnir þrír sem hverfast í kringum þær mæðgur fá allir að njóta sín í þessari sögu og að mínu mati þá er Hreinn gríðarlega vel heppnuð karakterstúdía, hann er narsissisti en birtist heldur ekki sem skrípamynd, þótt hann sé kómískur, hann virðist frekar vera með raunverulega persónuleikaröskun og Hlynur Björn Haraldsson fangar þennan mann frábærlega vel, hann er bæði heillandi, brjóstumkennanlegur en líka hættulegur því hann skilur eftir sig slóð eyðileggingar hvert sem hann fer.  Agnes Joy nær utan um núansa, flækjur og fínleg blæbrigði í samskiptum fólks og samspili hins skoplega og harmræna í lífinu. Þorsteinn Bachmann leikur Einar, eiginmann Rannveigar sem virðist vera búinn að tékka sig út úr hjónabandinu og jafnvel lífinu en við fáum samt líka að sjá fleiri en bara eina hlið á honum. Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, leikur svo Skara, besta vin Agnesar, sem er heilsteyptur og góður strákur sem hægt er að treysta á og skapar mótvægi við hina eldri karlmennina í sögunni, kynslóðamunurinn er áhugaverður í þessu samhengi.

Katla Margrét nær fullkomnu jafnvægi í túlkun sinni á Rannveigu, sem er kómísk en líka full af hlýju og samkennd. Donna ljær aðalpersónunni Agnesi trúverðugleika og dýpt, hún er aldrei smættuð í útlit sitt og uppruna en ekki er vikist undan því að horfast í augu við þau áhrif sem það hefur á líf Agnesar sem er annars ósköp venjulegur íslenskur unglingur. Eftir því sem líður á myndina finnur Agnes alltaf betur og betur sína eigin rödd sem nær hámarki undir lokin, í senu sem hefði hugsanlega gert Agnesi að fórnarlambi hefði nálgun eða jafnvel kyn leikstjórans verið annað, en lítillækkunin sem hún verður fyrir gerir rödd hennar einfaldlega enn þá hærri og sterkari.

Það var löngu tímabært fyrir okkur áhorfendur að fá að sjá nýja kvikmynd eftir Silju Hauksdóttur, ég vona að bilið á milli Agnesar Joy og næstu myndar Silju verði ekki jafn langt og á milli Dísar og Agnesar.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Lífið tók stakkaskiptum eftir Ungfrú Ísland

Kvikmyndir

Ekki snöggan blett að finna á Agnesi Joy

Kvikmyndir

Eina stelpan með broddaklippingu í ballett

Kvikmyndir

Fjarlægur draumur fá aðalhlutverk á Íslandi