Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ljótleikinn er dyggð, fegurðin þrældómur

Mynd: RUV / RUV

Ljótleikinn er dyggð, fegurðin þrældómur

18.12.2019 - 15:53

Höfundar

Ljótleikinn hefur verið lofsunginn í ítalska smábænum Piobbico í 140 ár. Bærinn er þekktur sem höfuðborg ljótleikans og síðustu misseri hefur fegurð hugsjónarinnar um ljótleikann breiðst út um allan heim.

Piobbico er tvö þúsund manna miðaldabær á miðjum Ítalíuskaganum austanverðum, milli Appenina-fjallgarðsins og Adríahafs. Bærinn er eins og leikmynd í gamalli kvikmynd, miðaldasteinhús í skógivaxinni hlíð. Það er þó ekki fegurðin sem heldur nafni þorpsins á lofti, heldur ljótleikinn. Frá árinu 1879 hefur bærinn verið heimkynni Club dei Brutti eða Félags ljótra. Giovanni Aluigi hefur verið formaður félagsins síðustu átta ár. Hann segir að kjörorð félagsins séu: Ljótleikinn er dyggð, fegurðin þrældómur.

Tinder nítjándu aldar

Félagsmenn trúa því einlæglega að fegurðin felist í innrætinu, ekki útlitinu. Þetta kviknaði sem fögur hugsjón fyrir hundrað og fjörutíu árum en hefur með tíð og tíma þróast og er að verða að alheimshreyfingu. Nú eru þrjátíu þúsund manns í Heimssamtökum ljóta fólksins. Upphaflega hugmyndin var að mynda félagsskap, ekki síst til þess að koma einstæðum konum í kynni við væntanlegan maka. Benedetta Aluigi segir að Félag ljótra hafi í raun verið Tinder síns tíma. 

Vettvangur varanlegra ásta

Félagsskapurinn þróaðist úr því vera vettvangur samskipta og varanlegra ásta yfir í tilbeiðslu á innri fegurð, óháð líkamlegri ásjónu. Árið 2007 var afhjúpuð stytta á aðaltorgi bæjarins til að heiðra ljóta fólkið. Benedetta Aluigi segir félagsskapinn afar mikilvægan í litlu samfélagi þar sem allir þekki alla. Félagið sameini bæjarbúa og sé vettvangur samhjálpar á öllum sviðum. Í raun snúist félagsskapurinn fyrst og fremst um hluttekningu eða samúð.

Staðsetning á ljótleikakvarðanum

Í seinni tíð hefur félagsskapurinn verið opnaður upp á gátt og utanaðkomandi fengið að komast inn í hlýjuna. Eldri félagsmenn meta þá sem sækja um inngöngu og ákveða hvar á ljótleikakvarðanum hver og einn á heima. Ljótleikinn getur verið allt frá ótilgreindum ljótleika yfir í furðulega ljótan. Félagar þurfa í raun ekki að vera ljótir. Það er innri fegurðin sem er lofsungin og það að hafa ekki áhyggjur af því hvað öðrum finnst um útlitið.

Uppreisn gegn landlægri útlitsdýrkun 

Fyrsta sunnudag í september er haldin hátíð hinna ljótu í miðaldabænum fagra. Hátíðin verður stöðugt fjölmennari og gestir koma til að fagna fegurð ljótleikans frá öllum heimshornum. Á hátíðinni er forseti félagsins kjörinn, nýir félagar teknir inn í samfélag ljótra og snætt staðbundið góðgæti, eins og tröfflur eða jarðkeppur eins og neðanjarðarsveppurinn kallast víst á ástkæra ylhýra, pasta og pólenta karbónara sem eldað er í forláta látúnspottum. Í raun er þetta uppreisn gegn landlægri útlitsdýrkun á Ítalíu og um heim allan. Innri fegurð skiptir meiru en ásjónan. 

Vertu þú sjálfur!

Benedetta Aluigi segir að í raun skipti ljótleikinn engu máli, fólk þurfi ekki að vera ljótt til að komast í félagsskap ljótra. Hins vegar sé nauðsynlegt að vera fallega innrættur og skilja raunverulegt inntak félagsins. Vertu þú sjálfur. Í því felst fegurðin. Trúðu á sjálfan þig og hafðu ekki áhyggjur af annara manna sleggjudómum.