Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ljóð fyrir þjóð: Einkalestur á ljóðum í samkomubanni

Stóri salur þjóðleikhússins.
 Mynd: Þjóðleikhúsið

Ljóð fyrir þjóð: Einkalestur á ljóðum í samkomubanni

16.03.2020 - 18:00

Höfundar

RÚV og Þjóðleikhúsið taka höndum saman um að skemmta landsmönnum meðan á samkomubanni stendur. Almenningi býðst að velja eftirlætisljóð og fá einkalestur frá leikurum á stóra sviði Þjóðleikhússins.

Þjóðleikhúsið, líkt og aðrar sviðslistastofnanir, hefur þurft að fresta almennum sýningum um óákveðinn tíma þar sem samkomubann hefur verið sett á í landinu. Til að bregðast við þessu hefur leikhúsið í samstarfi við RÚV ákveðið að hleypa af stokkunum verkefninu Ljóð fyrir þjóð.

Verkefnið fer þannig fram að almenningur getur sent inn ósk um eitt ljóð sem er í sérstöku uppáhaldi hjá viðkomandi. Daglega, frá mánudegi til föstudags, meðan samkomubannið er í gildi, fær einn Íslendingur boð um að koma í Þjóðleikhúsið og fá ljóðið sitt flutt af einum leikara hússins á stóra sviði Þjóðleikhússins, fyrir sig einan. Ljóðalestrinum verður svo útvarpað í Víðsjá á Rás 1, frá þriðjudegi til fimmtudags.

Val um ljóð fer fram hér fyrir neðan. Þú getur valið eitt ljóð á listanum en ef eftirlætis ljóðið þitt er ekki að finna þar geturðu sent það inn. Einnig er hægt að senda inn óskir á Facebook-síðu Þjóðleikhússins. Dregið verður úr innsendum óskum og samband haft við þau heppnu.