Litrík upphafning á öllu því sem mætti kalla stelpulegt

Mynd: DC / DC

Litrík upphafning á öllu því sem mætti kalla stelpulegt

16.02.2020 - 11:54

Höfundar

Gotham-borg hefur aldrei verið jafnlitrík og í kvikmyndinni Birds of Prey þar sem hin litríka Harley Quinn er í aðalhlutverki. Gunnar Theodór Eggertsson kvikmyndagagnrýnandi segir hana vera stórkostlega frelsun persónu sem lengst af hefur staðið í skugga Jókersins.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Á leiðinni út úr Kringlunni um daginn gekk ég ásamt fjögurra ára dóttur minni framhjá plakatinu fyrir nýjustu ofurhetjumyndina Ránfugla – Birds of Prey – þar sem líta má höfuðmynd af hinni litríku Harley Quinn í fullum farða og allri sinni skrautlegu dýrð, innan um smágerðar útgáfur af glæpagengi myndarinnar, vængjuðum og vopnuðum glæsikvendum sem hringsóla eins og paradísarfuglar í kringum aðalnúmerið. Litla stúlkan mín hló og benti og sagðist sko vilja sjá þessa mynd, og ekki að furða, því Harley og Ránfuglarnir hennar eru brjálæðislega litrík upphafning á öllu því sem mætti kalla stelpulegt, andhetja sem lifir í anarkískri ofbeldisgleði, glæpamynd á formi glimmersprengju. Þessa máttu sjá þegar þú ert unglingur, svaraði ég og fjögurra ára stúlkan var ekki sátt, en við létum þar við sitja, og ég sleppti því að fara út í smáatriði um brotna fætur, byssubardaga, afskorin andlit og ærslafengna gagnrýni á feðraveldið – því myndin er sannarlega bönnuð innan sextán.

Harlekín tilheyrir veröld Leðurblökumannsins og baksaga persónunnar er afar áhugaverð í sjálfu sér en í örstuttu máli varð hún til á tíunda áratugnum sem trúðsleg kærasta Jókersins, og í raun viðbót við hans persónu frekar en sjálfstæð sögupersóna, enda hefur það hlutverk skilgreint hana allar götur síðan: að vera kærasta Jókersins. Harlekín varð snemma vinsæl í teiknimyndum og myndasögum og hlaut þá flóknari baksögu sem óx með árunum, ekki síst þegar hún og Jókerinn hættu loksins saman og hún fékk tækifæri til að blómstra upp á eigin spýtur. Og það er einmitt sagan í Ránfuglunum sem hefst með sambandsslitum hennar og Jókersins og markar skýra stefnu strax í upphafi: þetta er mynd um konu fyrir miðju, stöðu hennar út á við og samband við þá sem vilja stjórna henni. Án verndar Jókersins kemst Harley að raun um að hún hefur eignast marga óvini í gegnum tíðina og nú þarf hún að standa á eigin fótum og byggja upp sitt eigið veldi. Bæði Blaki og Jókerinn eru fjarri góðu gamni en þess í stað fáum við sögur fleiri kvenna sem allar eru í svipaðri stöðu og Harley: söngkona sem er undir hæl stórglæpamanns, lögreglukona sem er stöðugt haldið niðri innan deildarinnar, dularfull krossbogakona sem á harma að hefna, og ungur þjófur sem á engan að og rænir úr vösum fólks á götunni. Leiðir þeirra liggja saman vegna demants sem allir eru á höttunum eftir og í rauninni er marklaust að ætla að fara nánar út í plottið: það er frekar óspennandi og hefðbundið, óþarflega flókið og fjarstæðukennt á köflum – en það skiptir heldur ekki öllu máli. Þrátt fyrir ákveðna galla, er það fyrst og fremst stemningin í Ránfuglunum sem gerir hana að svo skemmtilegri mynd, persónurnar, lúkkið og töfraljóminn í kringum Harley Quinn og veröldina hennar.

Gotham-borg hefur aldrei verið jafnlitrík, að minnsta kosti ekki í bíómyndunum, nema kannski í hinni afleitu Batman og Robin frá 1997, en þrátt fyrir að deila ákveðnum tengingum hvað varðar litapalettu og hressilega framsetningu á efni og persónum, þá falla Ránfuglarnir aldrei ofan í sömu hallærislegu klisjur og sá forveri, enda allt önnur stemning sem ræður ríkjum. Margot Robbie skemmtir sér konunglega í titilhlutverkinu og smitar út frá sér í allar áttir. Það sama má segja um hin glæpakvendin og einnig Ewan McGregor í hlutverki erkióþokkans, Svörtu grímunnar, slepjulegs forréttindakarls sem bilast þegar hann fær ekki það sem hann langar í. Sviðsmyndirnar eru glæsilegar og gera mikið fyrir andann í myndinni og tívolístemningin verður bókstafleg á lokasprettinum, þegar við förum í rússíbanaferð með glæpagenginu í yfirgefnum skemmtigarði. Ég hafði mun meira gaman af Ránfuglunum en ég þorði að vona og ég held að það tengist að miklu leyti margræddri ofurhetjuþreytu, en Harlekín er fjarri því að vera hefðbundin ofurhetja og Ránfuglarnir alls ekki hefðbundin ofurhetjumynd. Jú það er mikið um slagsmál, sitt hvað um ofurkrafta og aðalpersónurnar virka stundum ósigrandi, en myndin leyfir líka persónu Harley að vera í fyrirrúmi og kafar dýpra ofan í geðtruflanir hennar og ruglað tilfinningalíf en ég átti von á að sjá í slíkri mynd. Bardagarnir eru líka jarðbundnir miðað við það sem gengur og gerist. Það er ekki allt yfirfullt af tölvubrellum, heldur meira um slagsmál á götum úti og beinbrot á næturklúbbum. En Ránfuglarnir skera sig líka úr ofurhetjuhópnum vegna þess að hún er gerð af teymi kvenna. Christina Hodson skrifar, Margot Robbie framleiðir og Cathy Yan leikstýrir, stelpur sem hafa ákveðið að skemmta sér og leika sér að annars stöðnuðu og þreyttu ofurhetjuforminu.

Ránfuglarnir og stórkostleg frelsun Harley nokkurrar Quinn er ekki frábær mynd en hún er reglulega skemmtileg og ýkt glæpamynd sem skilur eftir sig blóðugt kandíflossbragð að sýningu lokinni.