Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Litlu munar að flæði yfir þjóðveginn

04.10.2015 - 20:03
Brúin yfir Eldvatn er löskuð og hefur sigið eftir að jarðvegur skolaðist undan öðrum stólpa hennar í Skaftárhlaupi í gær. Vatn streymir nú beggja vegna þjóðvegar og litlu munar að flæði yfir, þó verulega hafi dregið úr hlaupinu.

Brúin yfir Eldvatn verður lokuð næstu vikur. Grafið hefur undan undirstoðum hennar austanmegin og hún hefur sigið. „Við sjáum á henni að hún hefur örlítið undist til. Það er örlítil hreyfing á henni sem að sést. En við sjáum ekki mikið hvernig landið er að renna og hvort það er að renna undan henni beint,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Ekki er útilokað að undirstoðirnar gefi sig og brúin hrynji.

Verulega hefur dregið úr hlaupinu og er vatnsmagnið nú tíundi hluti þess vatns sem streymdi fram þegar hlaupið reis hæst. Litað jökulvatn rennur í Tungulæk og er rennslið í honum þrefalt meira en venjulega.

Reiðubúnir til að loka ef flæðir yfir
Hringvegurinn er enn opinn, en vatn streymir nú beggja vegna þjóðvegar. Sums staðar munar ekki nema 20 sentimetrum að yfir flæði. „Það er einhver hætta á því þarna við dyngjurnar að það flæði þar yfir því vatnsborðið þar þarf ekki að hækka nema um einhverja 20 sentimetra þannig að það flæði upp á veginn. En um leið og við sjáum að það er farið að renna inn á veginn þá lokum við þjóðveginum bara alveg um leið.“

Flóðið hefur valdið miklu tjóni á vegum í Skaftárdal og Fjallabaksleið nyrðri. Skemmdirnar ná yfir meira en kílómetra langan kafla. Óttast var að hlaupið hefði hrifið með sér brúna í Skaftárdal, en hún stendur enn. Hún gæti þó verið löskuð eftir flóðið. Vegurinn að henni er rofinn á yfir 300 metra kafla hvoru megin.

Óvíst hvort tjón fáist bætt
Viðlagatryggingasjóður nær yfir skemmdir á opinberum og vátryggðum mannvirkjum eins og á Eldvatnsbrúnni, en óvíst er með bætur vegna tjóns á túnum og landi. Slíkt gæti fallið undir Bjargráðasjóð. Bændur á svæðinu segjast ekki hafa fengið bætur vegna fyrra flóða.