Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Litla hafmeyjan í íslenskan búning

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend

Litla hafmeyjan í íslenskan búning

14.01.2020 - 21:30
Heims- og Ólympíumeistarar Danmerkur þurfa að treysta á Ísland ætli þeir sér áfram í milliriðil á Evrópumótinu í handbolta á morgun. Danir munu því styðja Strákana okkar til sigurs á morgun en stuðningurinn tekur sér ýmsar birtingarmyndir.

Danskir landsliðsmenn hafa í dag hvatt stuðningsmenn liðsins til að mæta snemma í keppnishöllina í Malmö á morgun til að styðja Ísland til sigurs á Ungverjum. Nái þeir ungversku í stig gegn Íslandi á morgun er ljóst að Danir eru úr leik.

Einhver stuðningsmaður Dana hefur nú sett styttuna frægu af litlu hafmeyjunni í Kaupmannahöfn í íslenskan búning líkt og sést á myndinni að ofan. Hafmeyjan er gerð að fyrirmynd ævintýris H.C. Andersen og var byggð af hálfíslenska myndhöggvaranum Edvard Eriksen.

Ísland mætir Ungverjalandi í Malmö klukkan 17:15 á morgun og hefur EM-stofan upphitun fyrir leikinn á RÚV klukkan 16:35. Þá er leikur Dana og Rússa klukkan 19:30 á RÚV 2 annað kvöld.

Uppfært kl. 21:45: Leikarinn Tryggvi Rafnsson, sem lék meðal annars forseta Íslands Guðna Th. Jóhannesson í Áramótaskaupinu 2016, hafði samband við Íþróttadeild og tók ábyrgð á gjörningnum. Að neðan má sjá mynd af Tryggva með styttunni.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend