Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Litir íslenska fánans

10.05.2016 - 16:49
íslenski fáninn
 Mynd: RÚV
Forsætisráðuneytiði hefur gefið út nýja auglýsingu um liti íslenska fánanas, og eru þar fastsettir litir fyrir prentun og skjái en í eldri auglýsingu sem gefin var út fyrir tuttugu og fimm árum var bara talað um textílliti. Fánalitirnir heita tilkomumiklum nöfnum heiðblár, mjallhvítur og eldrauður sem eru yfirfærðir í öllu hversdagslegri tölur í litakerfunum.

  Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að samfara því að heimildir til að nota fánann við markaðssetningu á íslenskri vöru og þjónustu hafi verið rýmkaðar,  hafi þörfin á reglusetningu aukist. Reynt var að finna liti í litakerfum fyrir prent og skjámiðla sem samsvara textíllitinum sem best og áréttað er að þegar önnur litakerfi eru notuð eigi að miða við þá liti sem líkjast textíllitunum best. Í auglýsingunni kemur fram að í  SCOTDIC-litakerfinu ber eldrauði liturinn nafnið ICELAND FLAG RED en á sér ekki númer.