Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lít ég út fyrir að búa við heimilisofbeldi?

22.09.2017 - 19:33
Mynd: RÚV / RÚV
Dr. Sigrún Stefánsdóttir, fyrrum fréttamaður, varð fyrir heimilisofbeldi um árabil. Hún sagði frá því opinberlega í fyrsta skipti í sjónvarpinu í kvöld, í söfnunarþættinum Á allra vörum, þar sem safnað var fyrir nýju húsnæði fyrir konur og börn sem eiga ekki í nein hús að vernda eftir að dvöl þeirra í Kvennaathvarfinu lýkur.

„Lít ég út fyrir að vera kona sem hef búið við heimilsofbeldi?“ Þessari spurningu varpaði Sigrún, þáverandi fréttamaður fram í sjónvarpsþætti sem hún gerði árið 1992 í tilefni af 10 ára afmæli Kvennaathvarfsins. Spurningin vakti mikla athygli en enginn gerði tilraun til að svara henni. Líklega vegna þess að engan grunaði að Sigrún hefði búið við slíkt.

Í þættinum Á allra vörum - Kvennaathvarfið, sem var í beinni útsendingu á RÚV í kvöld, sagði Sigrún fyrsta sinn frá því hvers vegna hún byrjaði sjónvarpsþáttinn á þessum orðum. Hún varð sjálf fyrir heimilisofbeldi um árabil. Í viðtalinu sem er hér í fullri lengd segir Sigrún einnig frá því hvernig hún vann sig út úr þessari erfiðu lífsreynslu en jafnframt hvernig þetta tímabil breytti henni sem manneskju, bæði í starfi og einkalífi.