Listin að binda og lita

Mynd: Pinterest / Pinterest

Listin að binda og lita

27.05.2019 - 11:04
Samkvæmt hinum ýmsu tískusíðum þá verður „tie-dye“ eitt það heitasta þetta sumarið. Mynstrið verður til með því að binda saman og lita flíkur og er meira að segja hægt að föndra heima hjá sér.

Margir tengja mynstrið líklega við hippatímabilið á árunum 1960-1970 en nú hefur það snúið aftur, í það minnsta yfir sumarið. Karen Björg Þorsteinsdóttir ræddi mynstrið í tískuhorni vikunnar en þrátt fyrir að hafa átt sinn hápunkt á hippatímabilinu er aðferðin að binda og lita fatnað rakin allt til ársins 500 e. Kr. 

Ef þig langar að gera þitt eigið „tie-dye“ er það alls ekki flókið. Eins og nafnið gefur til kynna þá felst aðferðin einfaldlega í því að binda saman og lita flíkurnar. Flíkin þarf einfaldlega að vera hvít á litinn og blaut áður en hún er snúin eða kuðluð saman og loks bundin með teygjum. Þá er hægt að lita flíkina með þeim litum sem henta þér og loks bíða eftir því að hún þorni.

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Nú þegar erum við farin að sjá „tie-dye“ á götum úti og það mun líklegast aukast í sumar

Stóru tískuhúsin láta sitt ekki eftir liggja en Prada, Stella McCartney og Ralph Lauren eru meðal þeirra merkja sem hafa sýnt „tie-dye“ flíkur á tískupöllunum. Flíkurnar eru þó ekki þetta klassíska „tie-dye“ sem fólk þekkir frá ströndum Tenerife heldur eru þær í öðruvísi litum með öðruvísi mynstrum. 

Karen bendir þó á að þar sem „tie-dye“ hefur lengi verið til ætti ekki að vera vandamál að finna slíkar flíkur í vintage búðum landsins, í skúffunni hjá mömmu eða pabba eða ömmu og afa. Svo getur maður náttúrulega bara farið að föndra sjálfur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Prada - Pinterest
„Tie-die“ línan frá Prada er ólík því „tie-die“ sem við þekkjum

Hlustaðu á tískuhorn vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan.