Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Listilegar lýsingar og enginn byrjendabragur

Mynd: RÚV / RÚV

Listilegar lýsingar og enginn byrjendabragur

21.11.2019 - 13:17

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála um að Svínshöfuð, sem er fyrsta skáldsaga Bergþóru Snæbjörnsdóttur, sé vel skrifuð bók og höfundurinn hæfileikaríkur.

Svínshöfuð er fyrsta skáldsaga Bergþóru en hún hlaut tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir ljóðabók sína Flórída sem kom út árið 2017. Í sögunni af Svínshöfði er ferðast um í tíma og rúmi, frá suðurhluta Kína í úthverfi Kópavogs með viðkomu á lítill breiðfirskri eyju. Kínversk kona kemur til Íslands og giftist manni sem kallast Svínshöfuð sem sá hana auglýsta í sjónvarpinu. Hann hefur sjálfur alltaf verið í litlum metum í sínu samfélagi. Kolbrún Bergþórsdóttir og Sverrir Norland fjölluðu um Svínshöfuð í Kiljunni og voru sammála um að það væri enginn byrjendabragur á skáldsögunni.

„Lýsingar Bergþóru á þessu lífi þykja mér ótrúlega listilegar og vel gerðar. Svínshöfuð er sjálfur durtur en maður hefur samt mikla samúð með  þessum manni,“ segir Sverrir. „Konan kemur með strák með sér frá Kína og sagan lýsir svo sambandi þeirra og sambandi Svínshöfuðs við strákinn. Í raun eru þetta þrjár nóvellur sem styrkjast af nábýlinu við hver aðra.“

Kolbrún er hrifnust af fyrsta hluta bókarinnar þar sem Svínshöfuð er kynntur til leiks. „Þar fannst mér margt alveg gríðarlega vel gert. Þetta er fyrsta skáldsaga höfundar en það er enginn byrjendabragur á henni,“ segir hún en bætir við að í lýsingu á hamrænum atburðum hafi henni fundist að höfundur hefði stundum mátt doka við og segja meira. „Í fyrsta hlutanum er til dæmis atburður sem er einungis sagt frá í nokkrum setningum og mér finnst að þar hefði mátt staldra við,“ segir hún. Sverrir er ósammála því: „Mér fannst þessi kafli alveg magnaður. Hún lýsti þessu hnitmiðað og mér fannst það takast mjög vel.“

Bókin er afar óvægin og allar persónur eru brotnar og hafa sinn djöful að draga. Kolbrún fann fyrir samúð með þeim öllum en mismikilli. „Mér fannst ég ekki alltaf skynja sársauka persóna en mér fannst það þó stundum, til dæmis hjá Svínshöfði og hjá konunni í öðrum hluta sem er móðir í taugaáfalli,“ segir hún. „Mér fannst þessi bók alveg ákaflega flott, ég staldraði við margar lýsingar og las þær aftur, “ segir Sverrir að lokum og Kolbrún tekur undir: „Hún er mjög hæfileikarík.“

Fjallað var um Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur í Kiljunni og má hlýða á alla umfjöllunina í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Rjóður kærasti sem skilur eftir sig tómarúm

Bókmenntir

„Yrsa hefur skrifað meira spennandi bækur“