Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Listi umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra ekki birtur

27.11.2019 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Listi umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra verður ekki birtur opinberlega eftir að umsóknarfrestur rennur út á mánudag. Þetta staðfestir Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV. Hann segir að stjórnin hafi samþykkt á síðasta fundi að fylgja ráðleggingu ráðningarfyrirtækisins Capacent um þetta.

Þetta eigi, að sögn Capacent, að auka möguleika á að fá betri umsækjendur. Eftir að RÚV varð opinbert hlutafélag ber því ekki skylda til þess að birta lista umsækjenda. 

Kári segist ekki hafa upplýsingar um það hversu margir hafi sótt um nú þegar, þær upplýsingar berist stjórninni fyrst eftir að umsóknarfresturinn rennur út. Þá taki við vinna við að vinna úr umsóknunum. Ekki hafi verið settur tímarammi á ráðningu nýs útvarpsstjóra.

Magnús Geir Þórðarson hefur verið skipaður Þjóðleikhússtjóri frá áramótum. Margrét Magnúsdóttir skrifstofustjóri RÚV, er starfandi útvarpsstjóri. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV