Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Listamenn og stofnanir bregðast við samkomubanni

Mynd: RÚV / RÚV

Listamenn og stofnanir bregðast við samkomubanni

17.03.2020 - 11:54

Höfundar

Fjölda tónleika, leiksýninga og annarra menningarviðburða hefur verið frestað eða aflýst vegna samkomubanns. Listamenn og menningarstofnanir leita nú annarra leiða til að miðla listinni.

Samkomubann hefur víðtæk áhrif, meðal annars á menningarlíf landans. En menningarstofnanir láta ekki deigan síga og leita nýrra leiða til að miðla efni til fólks heim í stofu, í sjónvörp, síma og snjalltæki.

Samkomubannið bitnar hart á sjálfstætt starfandi listamönnum, sem sjá fram á mikið tekjutap og þurfa að kljást við gjörbreyttar aðstæður. Þeirra á meðal er tónlistarmaðurinn Svavar Knútur, sem segist sjá fram á tveggja til þriggja mánaða tekjutap. 

Listamenn stofna Kvílist

„Eftir að við listamenn erum búnir að komast yfir upphaflega tekjutapssjokkið, þá náttúrulega vöknum við til vitundar um það að fólk almennt er að fara á mis við menningu og listir. Þannig að við erum að reyna að finna leið til að koma list og menningu út til fólks á þessum tímum þegar það kemst ekki út til að njóta hennar.“

Svavar segir tækni- og sviðsmenn ekki síður eiga á brattann að sækja.

„Eins og við vorum að ræða um áðan þá hafa norskir listamenn stofnað síðu sem tekur saman viðburði sem listafólk er að streyma og við erum að hugsa um að setja þannig upp líka hér. Við ætlum að kalla það Kvílist, því að list og menningarneysla er vöðvi og ef hann er ekki notaður þá rýrnar hann.“  Facebook-síðu Kvílist má finna hér

Stofnanir neyðast til að finna nýjar leiðir

Njörður Sigurjónsson er prófessor í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Hann hefur bent á möguleika sem liggja í stafrænni miðlun menningarefnis.

„Núna eru tækifærin. Það sem er erfiðast oftast er viðburðurinn sjálfur, ef við tölum um sviðslistastofnanir, ef við sjáum tónleikana eða leiksýningu. En það er ýmislegt í kringum þetta sem fólk hefur áhuga á. Ég sé fyrir mér að það eigi eftir að opnast mikið af áhugaverðum leiðum. Sjálfstæðir listamenn, eru löngu farnir að nýta sér ýmis svona tæki, við sjáum rithöfunda sem eru með blogg og útsendingar af því sem þeir eru að gera, tónlistarmenn sem eru sjálfir með Instagram-reikninga og eru í samskiptum við sitt fólk, sína aðdáendur og núna er komið að þessum stærri stofnunum að finna leiðir, nú er komin neyðin sem við stöndum öll frammi fyrir.“

Þjóðleikhúsið leggur áherslu á nánd

„Þetta eru auðvitað sérstakir tímar,“ segir Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri, „og sérstaklega vegna þess að leikhúsið er auðvitað staður sem byggir á samveru og samkennd. Nú er samveran ekki í boði næstu vikur þannig að við þurfum að fara nýjar leiðir með áherslu á nánd. Við erum ekki að streyma heilum sýningum sem er streymt í litlum glugga heldur ætlum við að búa til ný verk sem eiga erindi og snerta einstaka áhorfendur í gegnum miðlun og með því að bjóða einstaka áhorfendum hingað í húsið til okkar. Það eru margar mjög spennandi og skemmtilegar hugmyndir sem verða kynntar á næstu dögum,“ segir Magnús og nefnir meðal annars verkefnið Ljóð fyrir þjóð sem hefst í vikunni.

Listasöfn áfram opin

Listasöfn verða almennt áfram opin, þar á meðal Listasafn Reykjavíkur, sem allar þó að sleppa viðburðum, til dæmis í kringum opnanir. Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafnsins, vekur líka athygli á því sem er í boði utan safnsins. 

„Í fyrsta lagi er það appið sem við gáfum út á síðasta ári, með göngutúrum og leikjum og hlutum sem fjölskyldur geta gert saman. Það er app sem fjallar um útilistaverkin í Reykjavík. Á föstudag eru jafndægur á vori og þá er venja hjá okkur að tendra Friðarsúluna og það verður gert eins og venjulega. Því er alltaf streymt þannig að fólk getur fylgst með því heiman frá sér og líka bara gaman að fá þetta ljós sem minnir á frið og samheldni.“

RÚV skoðar möguleika með helstu menningarstofnunum 

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri bendir á að Ríkisútvarpið hafi mikilvægu hlutverki að gegna við þessar aðstæður, ekki aðeins við að miðla upplýsingum og fréttum heldur líka menningarhlutverki. 

„Og við þurfum auðvitað að finna leiðir, nú þegar hætt er að sýna í leikhúsunum og tónleikahaldi hefur verið aflýst til þess að koma því sem er í gangi áfram og til þjóðarinnar. Við erum búin að auka við dagskrána yfir daginn með því að bæta inn efni, við erum líka að bæta inn efni í Spilaranum. Við erum með frábært menningarefni inni á menningarvefnum og það verður hægt og bítandi aukið þar við. Síðan verður auðvitað spennandi að sjá hvaða nýja efni við náum að setja saman og koma til landsmanna í þessari stöðu. Við settumst niður með sviðslistageiranum, með Þjóðleikhúsinu, með Borgarleikhúsinu, með Sinfoníuhljómsveitinni og óperunni og það eru alls konar hugmyndir að gerjast sem verður mjög gaman að sjá hvað úr verður.“

Lifandi list í lokuðu Borgarleikhúsi

Borgarleikhúsið ætlar að bjóða upp á fróðleik, upplestur, uppistand, leiksýningar og fleira og er þegar búið að streyma sýningu leikhópsins Ást og karókí sem nefnist Skattsvik Developement Group. 

„Það er einmitt á svona tímum sem erindi listarinnar er brýnast, þörfin mest og mátturinn og krafturinn stærstur,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri. „Við ætlum að kynna verk núverandi leikskálds hússins, Þórdísar Helgadóttur og vera með opna vinnustofu á hennar verki, sem er verk ennþá í vinnslu. Svo er kannski rúsínan í pylsuendanum Bubbi Morthens sem ætlar að vera með föstudagstónleika klukkan 12 á Stóra sviðinu alla föstudaga á meðan á samkomubanni stendur. Hann mun syngja 5 lög úr 9 lífum. Þannig að við erum að gera okkar besta til að vera lifandi í lokuðu húsi.“

Horfa má á innslag Menningarinnar um listviðburði á tímum samkomubanns hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Hefur fengið fjöldan allan af kveðjum frá Ítölum

Leiklist

Ljóð fyrir þjóð: Einkalestur á ljóðum í samkomubanni

Kvikmyndir

Aldrei séð svona nekt í íslenskri kvikmynd

Bókmenntir

Rammgöldrótt lýsing á heimi á heljarþröm