Listamenn leita að tækifærum í óreiðunni

Mynd: RÚV / RÚV

Listamenn leita að tækifærum í óreiðunni

22.05.2019 - 16:42

Höfundar

„Það er verið að nota myndlistina með miklu ríkulegri hætti en oft áður,“ segir Markús Þór Andrésson listfræðingur um helstu einkenni Feneyjatvíæringsins í ár. Það sé ekki bara verið að varpa köldum spegli á heim á heljarþröm heldur leiti listamenn að tækifærum í óreiðunni með gleði og einlægni að vopni.

Feneyjatvíæringurinn var settur í fyrstu vikunni í maí. Þetta er stærsti myndlistarviðburður heims, stundum kallaður Ólympíuleikar myndlistarinnar, en alls eiga um 90 þjóðir fulltrúa á hátíðinni. Aðalsýningarsvæðin eru tvö, gömlu hallargarðarnir í Giardini og herbyrgin og vopnabúrin í Arsenale. 

„Þar sem enginn stýrir sérstaklega þeim listamönnum sem koma inn í gegnum þjóðarskálana þá er þetta eðli málsins samkvæmt bara sitt úr hverri áttinni,“ segir Markús Þór Andrésson, listfræðingur og deildarstjóri hjá Listasafni Reykjavíkur, sem var staddur á Feneyjatvíæringnum. 

Úrvinnsla á tíðarandanum

Samt sem áður megi alltaf greina einhvers konar tíðaranda í verkunum sem sett eru fram.

„Að sjálfsögðu erum við alltaf að sjá einhvers konar úrvinnslu á tíðarandanum í dag, því sem er að gerast í veröldinni, það eru álitamálin sem við sjáum í fréttum og heyrum af í öðrum listgreinum. Það sem brennur á fólki eru þessi mörk sem maðurinn hefur sett sér í gegnum aldirnar. Mörkin á milli ótal hluta, milli okkar sjálfra og umhverfisins eða sjálfra okkar og lífríkisins, nú eða mörkin á milli hugar og líkama, eða mörkin á milli kynjanna, eða maður og vél. Það eru alls konar mörk sem við höfum gefið okkur að séu frekar skýr en það er að losna um öll þessi mörk og verða ákveðinn samruni milli hluta. Mér finnst það mjög skýrt í þjóðarskálunum. Það er verið að nota myndlistina með miklu ríkulegri hætti en oft áður, það er ekki bara þessi kaldi spegill heldur listamaðurinn kemur virkilega inn í verkið og umbreytir því með sínum hætti, hvort sem það er í efni eða frásögn eða öðrum hætti.“ 

Ferð ekki heim með samviskubit

Mesta spennan á opnuninni var í kringum franska skálann, þar sem fólk stóð í röð í allt að tvo tíma til að komast að.

Skjáskot úr umfjöllun Menningarinnar um Feneyjatvíæringinn 2019
 Mynd: RÚV
Franski skálinn vakti eftirtekt.

„Þar er listakona sem setur fram verk sem er mjög áhrifaríkt og ég skil að veki mikla lukku. Þetta er 20 mínútna kvikmynd og síðan eru gjörningalistamenn og skúlptúrar og innsetningar með þessu og það er mjög mikill leikur í þessu, einlægni og gleði. Þetta er svolítið það sem ég skynja á sýningunni núna; það er ekki svo mikið verið að benda fingri og maður fer heim með samviskubit af því að maður er svo vond manneskja og mannkynið á heljarþröm. Það er frekar verið að leita úrlausna og tækifæra sem eru í þessari óreiðu allri. Franski skálinn kjarnar þetta mjög vel.“ 

Gullna ljónið, aðalverðlaun hátíðarinnar í flokki þjóðarskála, fékk Litáen. Framlag þess var klukkustundar löng ópera sem flutt er átta sinnum á dag. Verkið nefnist Sun and Sea eða Marina og gerist á sólarströnd, sem búið er að koma fyrir á jarðhæð gamals vöruhúss. Á pöllum á efri hæðinni standa áhorfendur og virða fyrir sér baðgesti njóta lífsins á ströndinni en syngja um leið varnaðarorð um yfirvofandi umhverfishamfarir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verkið Sun and Sea eða Marina.

„Heimsósóminn og dramað og hörmungar heimsins í dag eru vissulega til staðar,“ bæti Markús við, „eins og í danska skálanum þar sem það hefur orðið heimsendir. Við erum með kvikmynd, einhvers konar sci-fi mynd, um hvað gerist eftir að öllu lýkur. Þarna er bara falleg stúdía á mennskuna, hvað það er að vera manneskja. Þetta er vissulega dómsdagsspá en unnið með það á póetískan og fallegan hátt.“ 

Meiri kraftur á samsýningunni

Á Feneyjartvíæringnum er einnig haldin stór alþjóðleg samsýning í Arsenale. Þar hefur bandaríski sýningarstjórinn Ralph Rugoff fengið til liðs við sig 79 listamenn hvaðanæva úr heiminum til að setja upp sýningu sem ber yfirskriftina May you live in interesting times eða „megir þú lifa á áhugaverðum tímum.“

Sigrúnu Ingu Hrólfsdóttur, forseta myndlistardeildar Listaháskóla Íslands, fannst meiri kraftur í samsýningunni en þjóðarskálunum.

„Það er mjög mikill fókus á reynslu svartra og margir myndlistarmenn frá Afríku. Ég man þegar ég fór á tvíæringinn fyrst á tíunda áratugnum, þá var enginn. Það hefur margt breyst þannig á stuttum tíma. Þetta er orðið raunverulega alþjóðlegt. Það er líka ótrúlega gaman að sjá hvað efniskennd er að koma til baka, það eru alls konar skrítnir skúlptúrar og vídeó í bland og málverk og allt er í gangi. Myndmálið er að tala við mann.“ 

Christoph Büchel, sem var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2015, er einn þeirra sem taka þátt í samsýningunni. Hann leggur fram verkið Barca Nostra; flak af skipi sem fórst á Miðjarðarhafi árið 2015. Að minnsta kosti 800 flóttamenn sem voru um borð týndu lífinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verk Christophs Büchels.

„Eins og Christoph gerir þá gengur hann rosalega beint til verks og gerir verk sem er gríðarlega áhrifaríkt og fer algjörlega inn í kviku heimsmenningarinnar,“ segir Markús. „Hann er sjálfur frekar til baka en dregur fram hlut sem hefur gríðarlega merkingu og beinir sjónum okkar að því. Þetta er mjög áhrifaríkt verk þegar maður leiðir hugann að því hvað liggur þarna að baki.“

Um helmingur þjóðarskálanna er á aðalsýningarsvæðunum tveimur en hinir dreifast vítt um borgina. Hvernig er hægt að komast yfir alla þessa myndlist á örfáum dögum? 

„Ég reyni að vera mjög lífrænn í þessu. Fer í marga hringi og gleymi að skoða hitt og þetta þangað til einhver bendir mér á það, þannig að þetta er mjög óskipulagt. Maður getur lent í röð sem tekur tíu mínútur og svo eins og þegar ég reyndi að komast inn í franska skálann, það tók tvo klukkutíma. Maður er bara partur af þessu. Þetta er bara eitthvað flæði.“

Fjallað var um Feneyjatvíæringinn í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Myndlist

Greining á Feneyjatvíæringnum

Tónlist

Hinn litrófsborni hamur Shoplifter í Feneyjum

Myndlist

Skipsflak þar sem hundruð létust til sýnis