Línurnar skýrast í Gettu betur

Línurnar skýrast í Gettu betur

21.02.2020 - 19:15
Í kvöld klukkan 19:45 fer fram síðasta viðureignin í 8-liða úrslitum Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Skólarnir sem eigast við eru Menntaskólinn á Ísafirði og Verzlunarskóli Íslands. Að viðureigninni lokinni verður dregið í undanúrslit keppninnar.

Ljóst er að um spennandi keppni er að ræða en Menntaskólinn á Ísafirði er í annað skiptið í sögu skólans kominn í 8-liða úrslit. Verzlunarskólinn hefur unnið hljóðnemann, verðlaunagrip keppninnar, einu sinni. 

Lið Menntaskólans á Ísafirði skipa þau Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir. Lið Verzlunarskóla Íslands skipa Eiríkur Kúld Viktorsson, Gabríel Máni Ómarsson og Hekla Sól Hafsteinsdóttir. 

Að keppni lokinni verður, eins og áður sagði, dregið í undanúrslitaviðureignirnar en þeir skólar sem nú þegar hafa tryggt sig áfram eru Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn við Ármúla og Menntaskólinn í Reykjavík. 

Bein útsending hefst á RÚV klukkan 19:45 en sömuleiðis er hægt að horfa í beinni í spilaranum hér fyrir ofan. Dómarar og spurningahöfundar Gettu betur eru Ingileif Friðriksdóttir, Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helgi Bragason. Spyrill er Kristjana Arnarsdóttir.